131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:40]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir athyglisverða ræðu að mörgu leyti. Þar kom ýmislegt fram og m.a. gamlar lummur frá vinstri mönnum í umræðum um skattamál. Ég skildi hv. þingmann ekki betur en svo að hann teldi óskynsamlegt að lækka skatta með þeim hætti sem til stendur að gera samkvæmt frumvarpinu sem hér er til umræðu. Honum þykir óskynsamlegt að lækka skatta núna, að nú sé ekki rétti tíminn til að ráðast í skattalækkanir eins og þær sem hér um ræðir.

Slíkar röksemdir eru í sjálfu sér ekki nýjar. Við hægri menn, sem höfum staðið að skattalækkunum í gegnum tíðina og verið talsmenn þess að minnka álögur á skattgreiðendur öfugt við vinstri menn, þekkjum þessar röksemdir. Því er nefnilega alltaf haldið fram af vinstri mönnum að ekki sé rétti tíminn til að lækka skatta. Það má ekki lækka skatta í góðæri, segja þeir, vegna þess að þá eykst þenslan. Það má heldur ekki gera í hallæri vegna þess að þá er tekjuhlið ríkissjóðs ógnað. Það má heldur ekki gera í jafnvægi vegna þess að þá raskast jafnvægið.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann einfaldrar spurningar og hún er þessi: Hvenær og við hvaða aðstæður telur hv. þingmaður rétt að lækka skatta?