131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:44]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú taka það fram í upphafi að ég tel að forsendurnar sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson leggur til grundvallar í spurningum sínum til mín séu ekki alls kostar réttar. Okkar pólitík gengur út á að létta álögum af skattgreiðendum, að skila stærri hluta af sjálfsaflafé þeirra í þeirra eigin vasa. Það er algjörlega í samræmi við þá pólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir. Við verjum 22 þús. millj. kr. á ári í skattalækkanir.

Ég er ekki tilbúinn til að skrifa upp á það og veit ekki hvað hv. þingmaður hefur fyrir sér í því þegar hann heldur því fram að þær gjaldahækkanir, þær verðlagsbreytingar sem gerðar hafa verið á einstökum gjaldaliðum við tekjuöflun ríkissjóðs nemi hærri fjárhæð en 22 þús. milljónum á ári. Ég er bara ekki sammála því og tel að þingmaðurinn hafi rangt fyrir sér í þessu.

Ég get ekki séð að það sé neitt óljóst í okkar pólitík, hún liggur fyrir og hefur verið skýr. (Forseti hringir.) Það hefur pólitík Samfylkingarinnar að þessu leyti hins vegar ekki verið.