131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:16]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á nokkra hluti í sinni ágætu ræðu. Hún kom m.a. að afnámi eignarskattanna sem hún fullyrti að kæmi fyrst og fremst tekjulitlum með lítið skuldsettar eignir til góða. Í gögnum frá embætti ríkisskattstjóra koma fram ákaflega athyglisverðar upplýsingar sem sýna allt aðra mynd en hv. þingmaður og ríkisstjórnin hafa dregið fram. Samkvæmt þeim útreikningum kemur fram að helmingur allrar eignarskattslækkunarinnar við niðurfellingu eignarskattsins liggur hjá efsta fjórðungi framteljenda, hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna. Meðallækkun hjóna í lægstu 5% er því um 9 þús. kr. á ári en hjá efstu 5% um 119 þús. á ári. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem ganga í berhögg við það sem ríkisstjórnin og hv. þingmaður fullyrti áðan.

Í dag er fríeignamark einstaklings vegna eignarskatts um 4,8 millj. kr. og hjóna 9,6 millj. Mörkin eru afskaplega lág og nauðsynlegt að hækka þau verulega, mikið frekar en að afnema skattinn eins og hér er lagt til. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni ekki eðlilegra að fara þá leið að breyta fríeignamörkunum verulega þannig að girt sé fyrir að tekjulítið eldra fólk í lítið skuldsettum íbúðum borgi ósanngjarnan og óréttlátan eignarskatt frekar en að um sé að ræða hreint afnám skattsins sem kemur ekki síst þeim til góða, samkvæmt þessum tölum, sem eru ríkir og efnaðir og fyrirtækjunum í landinu? Er hitt ekki sanngjarnari leið sem leiðir til meiri jöfnuðar í gegnum skattkerfið?