131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:20]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn svaraði spurningunni afdráttarlaust. Ég ítreka að hér er um aðgerð að ræða sem kemur fyrst og fremst þeim til góða sem hafa hæstar tekjurnar eins og segir hér: Meðallækkun hjá 5% tekjuhæstu eru 119 þús. kr. á ári, meðallækkun hjóna hjá 5% tekjulægstu eru 9 þús. á ári, æpandi munur.

Hitt sem ég vil spyrja hv. þingmann að er í sambandi við barnabæturnar sem hún kom inn á. Hér er lögð til hækkun barnabóta sem kemur til áhrifa á árinu 2006 og 2007. Í þeim tillögum er lagt til að skilað sé til baka fjórðungi af þeim 10 milljörðum sem ríkisstjórnin hefur hirt af barnafólki í gegnum barnabæturnar. Framsóknarflokkurinn lofaði því hins vegar fyrir næstum tíu árum að innleiða ótekjutengdar barnabætur upp að 18 ára aldri. Nú er það kosningaloforð að verða tíu ára gamalt og hefur enn ekki komið til efnda og í þeim skattalækkunar- og skattahækkunarfrumvörpum sem hér eru til umræðu frá ríkisstjórninni kemur ekkert fram í átt til þeirra kosningaloforða sem Framsóknarflokkurinn fór hamförum með árið 1995 um barnakortið, hækkun barnabóta og ótekjutengdar barnabætur til 18 ára aldurs. Það barnakort er eins heillum horfið og týnt nú sem þá.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið eðlilegra að verja þeim fjármunum sem verja á til að lækka skatta, þó að þeir séu teknir til baka og hækkaðir um 8 milljarða annars staðar þannig að um hreinar skattahækkanir er að ræða, hefði ekki verið eðlilegra að breyta kerfinu þannig að barnabætur hefðu verið hækkaðar miklu fyrr, miklu meira og þeim 10 milljörðum sem ríkisvaldið hefur hirt af barnafólki hefði verið skilað að fullu til baka mikið fyrr og kosningaloforðið efnt um ótekjutengdar barnabætur upp að 18 ára aldri strax en ekki 7 ára eins og hér er?