131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:25]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örfá atriði. Það er rangt sem haldið var fram af hálfu hv. þingmanns að skattbreytingarnar skili sér hlutfallslega meira og betur til hinna tekjulægstu en hinna tekjuhæstu. Staðreyndin er sú að skattar á hátekjufólk lækka um 9% á kjörtímabilinu en 4% hjá öðrum.

Einnig vil ég vekja athygli á því að barnabæturnar sem nú eru mjög til umræðu og ég fagna því að þær skuli bættar, eru 1,1 milljarði lægri núna en þær voru þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda og kominn tími til að snúa þeirri öfugþróun við.

Þá er komið að varðstöðu Framsóknarflokksins við velferðarþjónustuna. Ég tel að sú varðstaða sé ekki ýkja sterk, alla vega held ég að Öryrkjabandalagið mundi ekki segja að svo sé eða starfsfólk á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem sagt var upp eða þrengt var að, starfsfólk á ýmsum deildum þeirra stofnana eins og öldrunardeildum sem eru lokaðar um helgar og starfsfólkið sent heim vegna fjárskorts. Þetta er því ekki staðreynd og ekki satt að Framsóknarflokkurinn standi þarna sterka varðstöðu.

Síðan vil ég gera eina athugasemd. Þegar menn meta stöðu velferðarþjónustunnar og samfélagsþjónustunnar í landinu er ekki nægjanlegt að horfa á þau útgjöld sem til þeirrar þjónustu renna heldur verða menn líka að skoða formið. Einkavæðing elliheimila hefur t.d. leitt til þess að útgjöld ríkisins, og þar með til velferðar- og samfélagsþjónustu, hafa aukist. En vegna einkavæðingarinnar, markaðsvæðingar þessarar þjónustu (Forseti hringir.) er hún miklu dýrari en áður og þetta er hlutur Framsóknarflokksins.