131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:40]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Gjaldið sem á fara að greiða atkvæði um er ekki skólagjald eins og haldið hefur verið fram. Hér er á ferðinni þjónustugjald sem ríkisháskólarnir hafa óskað eftir að verði hækkað með þeim hætti sem fram kemur í frumvarpinu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að verða við þeim óskum enda telja þeir þetta eðlilegt og nauðsynlegt.

Hvorugur stjórnarflokkanna, hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn, hefur það á stefnuskrá sinni að leggja skólagjöld á nemendur í háskólum. Hins vegar er einn stjórnmálaflokkur á þinginu sem hefur opinberlega lýst því yfir að slík gjaldtaka komi ekki bara vel til greina heldur sé eðlileg, og sá stjórnmálaflokkur heitir Samfylkingin. Hugmyndir um skólagjöld koma fram í tillögum umræðuhóps, sem er partur af framtíðarhópi Samfylkingarinnar og fjallaði um rekstrarform í almannaþjónustu, og voru lagðar til ekki alls fyrir löngu. Þess ber að geta að tveir þingmenn Samfylkingarinnar áttu sæti í hópnum, hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þessir tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til að tekin verði upp skólagjöld í háskólum.

Það sem meira er, formaður framtíðarhópsins, enginn annar en varaformaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tók undir þau sjónarmið sem ég hef lýst hér og fram koma í tillögum framtíðarhópsins í viðtali við Viðskiptablaðið þann 22. október 2004.

Þar kom fram, með leyfi forseta:

„Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita.“

Það er því alveg ljóst, herra forseti, að einungis einn stjórnmálaflokkur hefur óskað eftir því að tekin verði upp skólagjöld í háskólum á Íslandi, það er hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn heldur Samfylkingin.

Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hafa orðið varir við ákveðna ólgu hjá háskólastúdentum sem ekki vilja að lögð verði skólagjöld á háskólanemendur og stjórnarflokkarnir munu því ekki leggja á skólagjöld við háskólana, þeir munu standast freistinguna sem fram hefur komið hjá forsvarsmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt.