131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:48]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það sem er sérstaklega ámælisvert við þetta mál er að fyrrverandi framkvæmdastjóri stúdentaráðs situr nú hér á þingi og er í oddastöðu í menntamálanefnd þingsins. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir var m.a. kosin á þing sem forsvarsmaður stúdenta en nú hefur hún gjörsamlega brugðist stúdentum. Aðeins einu ári áður en hv. þm. Dagný Jónsdóttir settist á þing skrifaði hún greinar um fjárskort háskólans og gegn svona hækkunum á skólagjöldum. Hv. þingmaður hefði ein getað komið í veg fyrir að þessi hækkun yrði að veruleika, t.d. með því að hleypa ekki málinu í gegnum nefndina sína sem hún iðulega gerir þegar kemur að þingmannamálum. Það gerði hún hins vegar ekki og nú vill hún ekki einu sinni greiða atkvæði gegn þessum auknu álögum á stúdenta. Þetta er dapurleg afstaða hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur sem stúdentar munu seint gleyma. Ég segi nei.