131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:03]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég þarf að biðja hv. þingmenn um að hætta að grípa frammi fyrir mér áður en ég hef ræðuna. Það eru kannski ný vinnubrögð í þinginu að byrja frammíöskrin áður en menn fá tækifæri til þess að tala, en ég ætla að fjalla aðeins um nokkur atriði sem varða málið sem hér er til umræðu, þetta stórkostlega mál sem lýtur að lækkun tekjuskatts, afnám eignarskatts, hækkun barnabóta og fleiri atriðum.

Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, með því að segja að þetta er mikil hátíðarstund að sjá fram á að mestu skattalækkanir í Íslandssögunni á lýðveldistímanum hljóti brátt lagagildi á Alþingi. Það er sérstaklega ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi lagt frumvarpið fram og með þeim hætti sem það er gert.

Ég leyfi mér að segja að þetta er líklega eitthvert mesta framfaramál þessa þings, og ekki bara þessa þings heldur þinga síðustu ára og áratuga, enda liggur það fyrir þegar frumvarpið er skoðað og afleiðingar þess að við erum að tala um skattalækkanir sem munu gagnast fólkinu í landinu vel. Það vilja ríkisstjórnarflokkarnir gera, þeir vilja lækka álögur á fólkið í landinu, skila til baka þeim afrakstri sem náðst hefur af fjármálastjórn síðustu ára. Þetta er fagnaðarefni og gríðarlegt fagnaðarefni fyrir okkur sem höfum mælt fyrir lækkun skatta.

Maður skilur hins vegar ekki alveg málflutning stjórnarandstöðunnar, meira að segja sumra flokka sem lofuðu skattalækkunum fyrir síðustu kosningar en rembast nú eins og rjúpan við staurinn og djöflast eins og naut í flagi til þess að reyna að bregða fæti fyrir skattgreiðendur í landinu. Þeir vilja koma í veg fyrir sjálfsagða kaupmáttaraukningu sem ríkisstjórnin og við sem styðjum hana mælum fyrir. Maður áttar sig ekki alveg á því hvað stjórnarandstöðunni gengur til.

Virðulegi forseti. Ég ætla einkum að víkja að þremur atriðum í ræðu minni. Ég ætla aðeins að fara yfir þau loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar. Í annan stað ætla ég að fara yfir það hversu hátt hlutfall launa menn greiða í skatt eftir því hversu háar tekjur þeirra eru. Í þriðja lagi ætla ég að taka nokkur dæmi sem er ætlað að renna stoðum undir þá fullyrðingu mína að tekjuskattslækkanirnar gagnist öllum vel og þetta séu tekjuskattslækkanir og aukning á kaupmætti venjulegs fólks í landinu. Ég ætla að hrekja það að verið sé að ganga erinda ríka fólksins en verið að níðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Herra forseti. Ef við rifjum upp í örstuttu máli hvað við sjálfstæðismenn sögðum fyrir síðustu kosningar, þá lofuðum við því að lækka tekjuskatt um 4%, lækka virðisaukaskatt, þ.e. lækka neðra þrepið úr 14% í 7%, afnema eignarskatt, lækka erfðafjárskatt í 5% og haga erfðafjárskattinum þannig að fyrstu milljónirnar yrðu án erfðafjárskatts og hækka barnabætur um 2 þús. millj. kr. Ef við skoðum hvað við höfum gert í skattamálum, hvað við höfum nú þegar staðið við eða munum standa við á næstu sólarhringum, liggur fyrir að búið er að lögfesta lækkun sérstaka tekjuskattsins og afnám hans, það verður búið árið 2006. Það er búið að lækka og samræma erfðafjárskatt úr allt að 45% í 5% á allan arf, óháð tengslum erfingja við hinn látna. Nú erum við að lækka tekjuskatt einstaklinga um 4%. Við erum að afnema eignarskatt einstaklinga og fyrirtækja og ætlum þeim breytingum að taka gildi árið 2006. Síðan erum við að hækka barnabætur um 2.400 millj., eða 400 millj. meira en við lofuðum fyrir síðustu kosningar.

Það er alveg rétt að virðisaukaskattslækkunin hefur ekki komið til skoðunar en verið er að útfæra með hvaða hætti það verður gert og er búið að stofna nefnd á vegum stjórnarflokkanna til þess að fara yfir það. Þar fyrir utan höfum við lækkað endurgreiðsluhlutfall námslána um 1%. Þessar breytingar þýða jafnframt að persónuafsláttur verður hækkaður um 8% til ársins 2007 og skattleysismörk verða hækkuð um 20% árið 2007.

Það sér því hver maður að við sjálfstæðismenn erum, ásamt framsóknarmönnum að sjálfsögðu, að standa við þau loforð sem við gáfum fyrir síðustu kosningar. Við sýnum það með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar og reyndar öðrum skattalækkunarfrumvörpum sem hafa verið samþykkt að við erum menn orða okkar, við meintum eitthvað af því sem við sögðum fyrir kosningar. Við meintum það sem við sögðum, við lofuðum efndum og við það stöndum við. Hins vegar erum við gagnrýndir fyrir að standa við kosningaloforð okkar af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er mjög furðulegt, en það virðist vera alveg sama hversu góð málin eru, þau eru öll gagnrýnd, m.a. mál sem kveða á um mikinn kaupmáttarauka fyrir fólkið í landinu, skattgreiðendur. Auðvitað er erfitt að gera sumum til geðs, en ef við hefðum svikið þessi kosningaloforð er ég hræddur um að það hefði heyrst hljóð úr horni, einnig frá stjórnarandstöðunni. Það er því erfitt að þóknast sumum, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, afar erfitt.

Stjórnarandstaðan hefur komist að þeirri niðurstöðu að ómögulegt sé að lækka tekjuskatt einstaklinga með þeim hætti sem hér er lagt til því skatturinn lækki svo lítið á einstaklinga sem greiða engan eða lítinn tekjuskatt. Þess vegna virðist mér sem stjórnarandstaðan sé á móti málinu, þ.e. skattar þeirra sem borga engan tekjuskatt lækka of lítið. Eðli málsins samkvæmt er innbyrðis ósamræmi í þessari fullyrðingu, en þetta er málflutningurinn í hnotskurn. Það hefur komið fram í umræðunni hjá hv. þingmönnum Ögmundi Jónassyni, Gunnari Örlygssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Össuri Skarphéðinssyni og fleiri hv. þingmönnum, að tillögum okkar um skattalækkanir sé ætlað að tryggja hátekjumönnum sem mestan arð af lagasetningunni.

Förum aðeins yfir það. Er ríkisstjórnin eingöngu að ganga erinda hátekjumanna og níðast á þeim sem minna hafa eins og haldið hefur verið fram í umræðunni?

Ég ætla að sýna fram á það með dæmum að svo er ekki. En áður en ég geri það langar mig til að rifja aðeins upp það sem allt of lítið hefur verið rætt um í umræðu um skattamál, það er hversu hátt hlutfall tekna sinna menn greiða í skatt eftir því hverjar tekjurnar eru. Með öðrum orðum hefur verið gefið í skyn í umræðunni hér og í umræðunni í þjóðfélaginu að allir skattgreiðendur greiði jafnháan skatt hlutfallslega. Þetta er alls ekki rétt. Skattkerfið er þannig innbyggt að í því er mikill jöfnuður. Þegar maður skoðar 100 þús. kr. manninn, af því að menn taka dæmi með þessum hætti, og reiknar út hversu hátt hlutfall af launum sínum hann greiðir til ríkisins kemur í ljós að hlutfall launa hans sem rennur til skatts eru 8%, þ.e. 7.998 kr. fara í skatt, restin rennur í vasa 100 þús. kr. mannsins. 150 þús. kr. maðurinn greiðir 25.744 kr. af tekjum sínum í skatt, eða 17,2%. 500 þús. kr. maðurinn greiðir 149.972 kr., eða 30% af launum sínum til hins opinbera. Milljónamaðurinn, af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hann í ræðu sinni, greiðir 327.440 kr. í skatt, eða 32,7%. Þegar menn skoða þessar tölur kemur í ljós að maður með 500 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir 18-faldan skatt þess sem er með 100 þús. kr. í laun, þó svo að laun hans séu aðeins fimmfalt hærri í krónum talið. Þetta er alveg ljóst og er bara einfalt reikningsdæmi. Milljónakrónamaðurinn greiðir nærri því 13-faldan skatt þess einstaklings sem hefur 150 þús. kr. í laun á mánuði, þó svo laun hans séu ekki nema sex sinnum hærri en 150 þús. kr. mannsins. Niðurstaðan af þessu er því eftirfarandi:

Því hærri tekjur sem menn hafa, því hærra hlutfall launa sinna greiða menn í skatt.

Það er mikilvægt að þetta komi fram og liggi fyrir í umræðunni um lækkun tekjuskattsins og þegar menn gagnrýna flata lækkun tekjuskattsins eins og hv. þm. Gunnar Örlygsson vék að í ræðu sinni.

Maður veltir því auðvitað fyrir sér þegar maður hlustar á þessa gagnrýni, sem er grundvallarpunktur í allri gagnrýni stjórnarandstöðunnar á það frumvarp sem hér er til umræðu, hvort hún væri sú sama ef við værum ekki að leggja til skattalækkanir heldur skattahækkanir.

Mundi stjórnarandstaðan halda sig við það prinsipp að það sé óeðlilegt að skattalækkun sé hlutfallsleg ef við værum með skattahækkunarfrumvarp í gangi? Mundi stjórnarandstaðan ganga um stræti og torg og krefjast þess, eins og menn krefjast hér varðandi skattalækkunina, að skattar hækkuðu um sömu krónutölu á alla greiðendur burt séð frá tekjum þeirra? Ég efast um það. Þá kæmi væntanlega annað hljóð í strokkinn. Það væri ágætt fyrst fulltrúi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Jóhann Ársælsson, er hér að fá útskýringar á því og upplýsingar um það hjá honum hvort stjórnarandstaðan yrði samkvæm sjálfri sér hvað þetta atriði varðar ef við værum að hækka skatta en ekki lækka þá.

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, herra forseti, fullyrði ég að þær skattalækkanir sem hér stendur til að lögfesta koma hinum venjulega manni vel. Þetta eru ekki bara aðgerðir sem eiga að nýtast hálaunamanninum. Þetta eru skattalækkanir og kaupmáttaraukning fyrir venjulegt fólk, hinn almenna skattgreiðanda, fólk sem hefur meðallaun og venjuleg laun. Ég ætla að taka nokkur dæmi vegna þess að það liggja fyrir útreikningar á áhrifum þessara skattbreytinga og hækkunar þeirra barnabóta sem við fjöllum hér um.

Ef við tökum sem dæmi hjón með tvö börn, annað er yngra en sjö ára og hitt er eldra en sjö ára. Ef við gefum okkur að þessi hjón hafi samtals 500 þús. kr. í laun á mánuði, þá leiðir þessi skattalækkun til aukningar ráðstöfunartekna upp á 8,9% eða 32.667 kr. á mánuði, eða 392.004 kr. á ári. Við erum bara að ræða um venjulegt fólk, hjón með samtals 500 þús. kr. í laun á mánuði. Kaupmáttur þeirra eykst um rúmar 392 þús. kr. á heilu ári. Svo segja menn að þessar skattalækkanir nýtist bara hátekjufólki.

Tökum annað dæmi. Tökum einhvern í þjóðfélaginu sem líklega gæti talist sá venjulegasti af öllum þjóðfélagshópum, kennara. Kennarastéttin er ekkert sérstaklega óvenjuleg, hún er ekki hátekjustétt og ekki er hún lágtekjustétt. Það kom hér fram í umræðum þegar kennaraverkfallið stóð yfir að meðaltekjur grunnskólakennara í Reykjavík væru 256 þús. kr. Gefum okkur að hjón séu bæði kennarar og með meðallaun sem við skulum segja að séu 500 þús. kr. Þau eiga fjögur börn, tvö eru yngri en sjö ára og tvö eru eldri en sjö ára. Með skattbreytingunum og hækkun barnabóta mundi þetta þýða fyrir þau aukningu ráðstöfunartekna upp á 42.917 kr. á mánuði eða 515.004 kr. á ári. Gæti hv. þm. Jóhann Ársælsson kannski upplýst mig um það hvort hann telji að þær breytingar sem við erum að fjalla um komi hinum venjulega meðalkennara til góða þegar þær eru komnar til framkvæmda?

Svo eru það einstæðu foreldrarnir. Tökum þá sem dæmi af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt því fram að einstæðir foreldrar hefðu það ekki allir svo gott, þeir væru ekki allir hátekjufólk og allt er það rétt. Tökum dæmi um hvað breytingarnar þýða í kaupmáttaraukningu fyrir þetta fólk. Tökum sem dæmi einstætt foreldri með tvö börn sem bæði eru eldri en sjö ára og gefum okkur að mánaðartekjur viðkomandi séu 125 þús. kr. Áhrif breytinganna eru þau að kaupmáttur þessa einstæða foreldris eykst um 10,7% eða 14.417 kr. á mánuði, þ.e. 173 þús. kr. á ári. Þetta er einstætt foreldri með tvö börn, ráðstöfunartekjurnar aukast um 173 þús. á ári, rúmlega ein mánaðarlaun. Svo halda menn því fram að hér sé einungis verið að hugsa um hátekjufólkið.

Gefum okkur það að þetta einstæða foreldri sé með örlítið hærri laun, 208 þús. kr. Hvað þýðir það? Það þýðir hækkun ráðstöfunartekna upp á 18.583 kr. eða rúmar 222 þús. kr. á ári. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst, þær skattbreytingar og hækkun barnabóta sem við erum að leggja til. Ég get farið yfir þetta allt saman aftur með hv. þingmanni ef eitthvað er óljóst í þessu.

Menn hafa talað um áhrif þessara skattbreytinga fyrir gamla fólkið. Ef við skoðum gamla fólkið og tökum einstakling sem er einungis með ellilífeyri og þar af leiðandi með um 1 millj. kr. í tekjur á ári. Það eru mjög lágar tekjur. Hann býr í skuldlausri eigin íbúð að verðmæti 20 milljónir. Fyrir þær breytingar sem hér er lagt til að verði gerðar, nemur tekjuskattur og útsvar þessa einstaklings 42 þús. kr. og eignarskattur 90 þús. kr. Eftir breytinguna borgar hann engan skatt og árleg aukning ráðstöfunartekna hans er 133 þús. kr. eða 16%. Þetta er sú þýðing sem þetta mál hefur fyrir ellilífeyrisþega. Afnám eignarskattsins skiptir nefnilega verulegu máli fyrir gamla fólkið sem hefur lagt ævistarf sitt í sparnað, þ.e. í fasteignina sína, hættir síðan að vinna og á erfitt með að greiða þá eignarskatta sem á fasteignina eru lagðir. Við erum að afnema þá skatta. Maður skilur ekki af hverju stjórnarandstaðan getur ekki stutt slíkar breytingar. Maður skilur það bara ekki.

Maður skilur heldur ekki, herra forseti, hvernig á því stendur að sumir hv. þingmenn sem eru reglulegir gestir í þessum ræðustól, eins og hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, hafa svona mikið út á þessar skattalækkanir að setja sem fela í sér aukningu á ráðstöfunartekjum venjulegs fólks, fólksins í landinu, af hverju þeir hafa svona miklar áhyggjur af þessum breytingum. Það stendur út úr þeim bunan og það er nánast farið með málið eins og ríkisstjórnin sé að fremja einhver ægileg myrkraverk.

Hins vegar heyrist ekkert frá þessum hv. þingmönnum, þar á meðal Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ögmundi Jónassyni, öllum þessum mönnum sem eru þingmenn Reykjavíkur, vegna þeirra skattahækkana og gjaldaaukninga sem eiga sér stað hjá Reykjavíkurborg. Maður skyldi ætla að þeir hv. þingmenn mótmæltu ef þeir ætluðu að standa við bakið á umbjóðendum sínum sem er fólkið í Reykjavík. Hvað er að gerast þar? Það er verið að hækka útsvarið, hækka leikskólagjöld og hækka fasteignaskatta.

Af því að ég fór hér yfir nokkur dæmi um hvað skattalækkunartillögur okkar þýða fyrir hinn venjulega mann, þá skulum við taka eitt dæmi um hvað gjaldahækkanir og skattahækkanir borgaryfirvalda í Reykjavík þýða fyrir venjulegt fólk.

Tökum sem dæmi hjón þar sem annað þeirra er í námi, hitt er með 265.500 kr. í laun á mánuði, sem er meðaltal á almennum vinnumarkaði samkvæmt upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd. Þessi hjón eiga 10 millj. kr. íbúð og eru með tvö börn á leikskóla í átta klukkustundir. Hvað þýða þessar hækkanir í Reykjavíkurborg fyrir þetta fólk? Þær þýða hækkun í útgjöldum upp á 13.687 kr. á mánuði eða 164.244 kr. á ári. Það er tæplega 170 þús. kr. kjaraskerðing fyrir þetta fólk. En það heyrist hvorki hósti né stuna frá stjórnarandstöðuþingmönnum sem ættu með réttu að gæta hagsmuna þessa fólks, gæta hagsmuna Reykvíkinga vegna þeirra hækkana sem ég hef hér farið yfir, koma í veg fyrir þá kjaraskerðingu sem félagar þeirra standa fyrir í borginni. Nei, það heyrist ekkert í þeim þegar kemur að þessum málum en þeir ráðast hins vegar á ríkisstjórnina fyrir að auka kaupmátt sama fólks, lækka skatta og draga úr útgjöldum þess. Auðvitað furðar maður sig á slíkum málflutningi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri í þetta skipti. Ég tel hins vegar alveg ljóst, og vísa til þeirra dæma sem ég hef tekið, að þær skattalækkanir sem við munum leiða í lög á næstu klukkutímum koma venjulegu fólki til góða, venjulegum skattgreiðendum. Þetta eru góðir tímar og ánægjuleg tíðindi fyrir okkur sem að þessu stöndum, fyrir launamenn og skattgreiðendur í þjóðfélaginu og fyrir þjóðfélagið allt. Mig langar til þess að óska ríkisstjórninni innilega til hamingju með frumvarpið, stjórnarmeirihlutanum, og launþegum öllum, öllum þeim sem greiða skatt. Þetta eru frábærir tímar. Þetta er frábært mál og við ættum, ef allir mundu ganga á öllum eins og sagt er, að geta tekið höndum saman um það (Gripið fram í.) hversu gott málið er. Og ég lýk máli mínu með því að óska þessum ágætu mönnum, hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, jafnframt til hamingju með málið.