131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:30]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur tölurnar sem hann ryður út úr sér. Ég á afskaplega bágt með að trúa að þær séu réttar. Ég á afskaplega bágt með að trúa að þær gjaldahækkanir, sem vissulega hefur verið lagst í, séu hærri en sú 22 þúsund milljóna kr. upphæð sem við ætlum að leggja til hliðar á ári með lækkun skattanna.

En hv. þingmaður verður að átta sig á að þrátt fyrir að ég og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins séum talsmenn þess að skattar séu lækkaðir þá erum við ekki anarkistar eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson heldur kannski, við erum ekki stjórnleysingjar. Við erum ekki þeirrar skoðunar (Gripið fram í.) og við höfum aldrei talað fyrir því að ríkið eigi alls ekki að afla sér tekna. Við höfum verið talsmenn þess að reka ágætis menntakerfi og velferðarkerfi og einhvern veginn verður að greiða fyrir það, þannig að af málflutningi okkar er alveg ljóst að við erum ekki á móti allri tekjuöflun ríkissjóðs, hvort sem það er í formi skatta eða gjalda.

Við höfum oft farið yfir að með áfengisgjöldunum og öðrum gjöldum er ekki verið að hækka skatta, það er verið að færa fjármuni og gjöld til samræmis við verðlag og það eru eðlilegar aðgerðir þegar um slík gjöld er að ræða. En ég leyfi mér að efast stórlega um að þær verðlagsbreytingar séu í einhverju tölulegu samræmi við þá fjármuni (Forseti hringir.) sem skattalækkanirnar munu ....