131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:34]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gaf í skyn í ræðu sinni áðan að þingmenn Frjálslynda flokksins væru á móti breytingum á eignarskatti. Ég verð að koma og leiðrétta þann stóra misskilning.

Í annan stað fá þingmenn Frjálslynda flokksins ómælda gagnrýni í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem einatt talar um hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þegar hann víkur að málefnum Reykjavíkurborgar. Ég vil minna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson á þá staðreynd að Frjálslyndi flokkurinn hefur fulltrúa í Reykjavíkurborg sem hefur tekið undir gagnrýni Sjálfstæðisflokksins á rekstur borgarinnar á nokkrum sviðum. Ég vil að það komi fram.

En áður en yfir lýkur vil ég minna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson á að eignarskattsbreytingar og viðbætur til barnabóta munu nema samtals 6 milljörðum kr. í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, en heildarpakkinn, herra forseti, hljóðar upp á 22 milljarða.

Ég styð áform ríkisstjórnarinnar um 6 milljarða sem munu renna til barnabóta og svo eignarskattsbreytingarnar. En aftur á móti deili ég á ríkisstjórnina og kom inn á það í ræðu minni, með hvaða hætti þessum 16 milljörðum kr. verður varið.

Því vil ég leggja þá spurningu fyrir hv. þingmann, herra forseti, hvort honum finnist það sárt persónulega að þurfa að greiða eða fá í sinn vasa með hækkun skattleysismarka, jafnmargar krónur og öryrki. Við í Frjálslynda flokknum höfum talað um að við viljum hækka persónuafsláttinn og tryggja þar með að hálaunaðir jafnt sem láglaunaðir fái jafnmargar krónur í vasa með dreifingu þeirra 16 milljarða sem um ræðir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í því felst gagnrýni mín, (Forseti hringir.) herra forseti, og mig langar að fá svör hv. þingmanns hvað þetta varðar.