131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:37]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna yfirlýsingu hv. þm. Gunnars Örlygssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, um að flokkurinn sé ekki á móti afnámi eignarskattsins, sé ekki á móti málinu. Ég tók þessu þannig, en bið hv. þingmanns forláts að hafa misskilið hann.

Ég verð jafnframt að segja að mér þykir afar miður að hafa bendlað flokk hans við R-listann í Reykjavík, það var stórkostleg yfirsjón og mun ekki gerast aftur. Hins vegar liggur alveg fyrir, og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem jafnframt er borgarfulltrúi, getur upplýst okkur um það og staðfest, að Frjálslyndi flokkurinn studdi skattahækkanirnar sem Reykjavíkurlistinn hefur staðið fyrir (Gripið fram í.) en þingmenn Frjálslynda flokksins hafa ekki séð ástæðu til að gagnrýna það hér á þinginu en hafa frekar beint spjótum sínum að kaupmáttaraukningunni sem við erum að reyna að mæla fyrir skattgreiðendum til handa.

Ef ég skildi hv. þingmann rétt þá varpaði hann þeirri spurningu fram hvort ég styddi eða hvort mér þætti ekki eðlilegra að persónuafsláttur yrði hækkaður fremur en að ráðist yrði í þær aðgerðir sem hér er er verið að ráðast í, og svarið við því er nei. Ég er ekki hlynntur slíkum aðgerðum í skattamálum frekar en þeim sem eru lagðar til. Breytingarnar sem við mælum fyrir gera reyndar ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki um 8% til ársins 2007, ef ég man rétt, en ég tel að lækkanirnar sem við mælum fyrir séu eðlilegri og (Forseti hringir.) við munum síðan leggjast í skattalækkanir sem munu gagnast þeim hópum vel sem hv. þingmaður talar um.