131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:48]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn geri áætlanir langt fram í tímann. Ég veit ekki hvaða hagfræðingar það eru, sem eru óháðir í störfum sínum, sem hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir þá aðferð sem beitt er í málinu. Hv. þingmaður verður að hafa það í huga að þær breytingar á skattaumhverfi sem við fjöllum um eru ekki einkamál ríkissjóðs. Þær eru líka mál skattgreiðendanna. Auðvitað skiptir það máli fyrir fólkið í landinu sem fær svona mikla aukningu á ráðstöfunartekjum sínum að það viti fyrir fram með hvaða hætti lækkanirnar muni koma fram þannig að það geti gert áætlanir fram í tímann á grundvelli þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hyggst grípa til.

Sú aðferð sem við höfum (Forseti hringir.) ákveðið að beita við skattalækkunina er því eðlileg og skynsamleg.