131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki í rökræður við hv. þm. Pétur H. Blöndal um framvirka gengisspákaupmennsku samninga, hann er algjör ofjarl minn í þeim fræðum, ég ástunda ekki slík viðskipti og hef aldrei sett mig inn í þau en ég heyri að hv. þingmaður hefur á þeim djúpa þekkingu.

Ég held samt hinu fram, að raungengisstigið hafi mikil áhrif og hefur réttilega þeim mun meiri áhrif sem innlendir kostnaðarþættir vega þyngra í útgjöldum fyrirtækja sem fá hins vegar tekjur sínar í erlendri mynt. Ef við skoðum fyrirtæki sem fær tekjur sínar í dollurum en hefur svo til allan tilkostnað innlendan, þar sem t.d. launahlutfall er hátt og annað í þeim dúr er myndin afar óglæsileg. (PHB: Þau eiga skuld í dollurum.) Sum þeirra skulda kannski eitthvað í dollurum, önnur skulda ekki neitt af því að atvinnureksturinn ber einfaldlega ekki miklar skuldir. Tökum ferðaþjónustuna sem dæmi. Innlendu þættir ferðaþjónustunnar, þ.e. ekki flugreksturinn heldur gisting og ýmis slík þjónusta út um landið, fá tekjur sínar að verulegu leyti inn eða semja um verð í gengi, (Gripið fram í.) en kostnaðurinn fellur að mestu til innan lands í formi vinnulauna og ýmiss konar þjónustu. Ég er ekki viss um að það sé svo einfalt fyrir ýmis smáfyrirtæki á þessu sviði.

Iðnfyrirtækin mörg hver reka bæði innlenda og erlenda starfsemi í dag. Þau eru með framleiðslueiningar hér heima en eiga líka verksmiðjur erlendis. Þetta gildir um Marel, Össur, Sæplast, lyfjafyrirtækin og mörg fleiri. Þau standa frammi fyrir því að það er ákaflega freistandi að halda algerlega að sér höndum a.m.k. hér heima, ef ekki hreinlega flytja meira af starfseminni út. (PHB: ... lægri skattar.) Jafnvel þó menn hafi lækkað eitthvað skatta dugar það kannski ekki á móti því mikla raungengisrisi sem hér hefur orðið. Veruleikinn er bara svona, hv. þm. Pétur H. Blöndal, og er einfaldlega sagna bestur.