131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:45]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hann koma heiðarlega fram í þessu og ég held að það sé augljóst öllum sem hlustuðu á ræðuna að hann er mjög á móti skattalækkunum af hugmyndafræðilegum ástæðum. Síðan hefur hann haldið sig á svipaðri línu frá upphafi, svipaðri og Samfylkingin hélt sig á í byrjun, þ.e. að það væri svo skelfilegt að lækka skatta núna út af þensluhvetjandi áhrifum í hagkerfinu. Samfylkingin hefur hins vegar snúið í það að þetta séu allt í einu orðnar skattahækkanir.

Hvað sem því líður vildi ég spyrja nokkurra spurninga. Hann sagði að þetta væru mjög dapurlegir tímar, aldrei meiri hætta í sögu þjóðarinnar, núna gæti farið illa og hann vísaði í frelsi á fjármagnsmarkaði sem mundi gera það að verkum að skellurinn yrði örugglega stór. Ég vildi bara fá að vita hvort þetta var ekki örugglega rétt túlkun, þ.e. að hann teldi að hér væri hætta sökum þess að hér væri mikið frelsi á fjármagnsmarkaði. Skil ég ekki hv. þingmann alveg rétt, vill hann ekki frekar hafa hlutina eins og þeir voru áður? Það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi.

Sömuleiðis vildi ég nota tækifærið og spyrja hann af því að hann er formaður í flokki sem hefur komið með tillögur um hækkun skatta, m.a. fjármagnstekjuskatts, hvort hann telji að það geti gerst að ef menn hækki skatta muni það samt sem áður skila minni tekjum. Ég vona að hv. þingmaður skilji hvað ég var að segja, þ.e. þegar við hækkum prósentuna af einhverjum skatti mundum við ekki ná því sem tilætlað var og jafnel minna en menn voru með áður en skattahækkun varð.