131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:56]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á umræðurnar sem hafa farið fram á hinu háa Alþingi í dag get ég á engan hátt verið sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um það sem ég hef heyrt.

Þingmaðurinn talar um að hægri sjálfstæðismenn hafi talað og haft orð fyrir Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið einarðlega fram með eina stefnu, allan þann tíma sem skattamálin hafa verið til umræðu.

Ég hef hins vegar, frú forseti, heyrt frá þingmönnum sem eru fulltrúar Samfylkingarinnar, ég heyrt hljóm Alþýðubandalagsins gamla, ég hef heyrt hljóm Kvennalistans gamla, ég hef lítið heyrt í hægri krötum, þó aðeins. Það væri gaman og ég óska eftir því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fari svolítið yfir þessi þrjú þrep í málflutningi svokallaðar Samfylkingar.

Í ræðu þingmannsins kemur fram að við Íslendingar séum ein af tíu auðugustu þjóðum heims, og því fögnum við eins og skattalagabreytingunum, hv. þm. Pétur Blöndal. Það kom jafnframt fram í ræðu þingmannsins að hér séu heimili einna skuldsettust, skuldir heimilanna séu miklar. Þá er spurning mín: Hver á þá að njóta arðsins sem er að verða til og hefur orðið til undangenginn rúman áratug í þjóðfélaginu? Að sjálfsögðu er það hinn vinnandi maður, sem oftast er ungt fólk með börn sem er að koma sér upp heimili. Þar kemur barnabótaaukinn einmitt til góða.