131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði fyrr í umræðunni. Þegar sú er hér stendur var að vinna með matarverðið þá var ljóst að hún átti hér bandamann í salnum, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann vildi skoða matarverðið og hann vildi að það væri farið í það þannig að Íslendingar gætu lækkað það sjálfir. Það vildi ég líka. Það hafði ekkert með það að gera hvort ég væri líka tilbúin að skoða það að fara í Evrópusambandið. Það er bara allt annað mál.

Ég hlýt að vekja athygli á því að hér er matarverð allt of hátt. Það er gífurlega íþyngjandi fyrir fólkið í landinu, fyrir heimilin, fyrir barnafjölskyldurnar. Besta aðgerðin hjá okkur er að lækka matarverð. Það er tillaga okkar og það hélt ég að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér líka að gera.