131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekkert í hvar hv. þingmaður hefur verið í dag. Mér hefur fundist hann vera duglegur að sitja hér. Ég hef verið að segja nákvæmlega það sama og formaður Samfylkingarinnar sagði í fyrstu ræðu Samfylkingarinnar hér í dag. Það var sko ... (Gripið fram í.) Í dag. Við höfum stutt stjórnarflokkana og viljað ganga lengur öll ár í barnabótunum og styðjum þess vegna hækkunina núna. Við styðjum auknar vaxtabætur. Við höfum lýst því yfir að við viljum og höfum alltaf viljað hækka persónuafsláttinn og við styðjum það. Við viljum lækka matarverðið og erum með sérstaka tillögu um það og við viljum hækka fríeignamarkið í eignarskatti. (Gripið fram í: Það er nýtt.) (Gripið fram í: Tekjuskattinn með ...) Við viljum hækka fríeignamarkið í eignarskatti og þetta var kynnt hér í dag. Það er að vísu dálitlum vanda undirorpið þar sem tillögur stjórnarmeirihlutans eru um að fella allt út um eignarskattinn. En þannig viljum við vinna. Við viljum nefnilega hugsa um unga fólkið sem er að koma úr námi og er væntanlega komið með börn, af því það er nú bara það sem hefur fylgt okkar unga fólki, Íslendingum. Við viljum styðja það með barnabótum, vaxtabótum, persónuafslætti og vera með góða fyrirgreiðslu í húsnæðismálum eins og hefur alltaf verið stefna Samfylkingarinnar. Svo hefðum við viljað að það væri stutt betur á námstímanum. Ég tók eftir því í dag að annar hv. þingmaður Framsóknarflokksins talaði um orðaleik í sambandi við innritunargjöldin og hækkunina á þeim hér í dag, orðaleik.