131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að margir hv. þingmenn Samfylkingarinnar mundu gjarnan vilja vera með á þessu frumvarpi — það hygg ég af fenginni reynslu — sérstaklega þeir þingmenn sem voru í Alþýðuflokknum einu sinni. Þetta er eins og sniðið fyrir þá. Þess vegna eru rökin svona erfið. Þess vegna er þetta svona erfitt. Það er tínt til hvert einasta fölnað laufblað sem finnst í skóginum hinum iðjagræna.

Ég má til með að segja hv. þingmanni að tekjur ríkissjóðs af ákveðnum skatti er ekki sama og skatturinn á einstaklingana sem gefur þann skatt. Ég nefni sem dæmi að skattur á fjármagnstekjur af söluhagnaði var lækkaður úr 47% niður í 10%. Við það jukust tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni margfalt. Lækkaði skatturinn eða hækkaði hann? Að sjálfsögðu lækkaði skatturinn. Nákvæmlega sama er með barnabæturnar. Barnabæturnar voru tekjutengdar í tíð Alþýðuflokksins á erfiðleikaárunum kringum 1993 og það voru alveg rök fyrir því. Barnabæturnar voru stórhækkaðar en tekjutengdar mjög. Síðan hækkuðu tekjur óskaplega í þjóðfélaginu og fleiri og fleiri þurftu ekki á barnabótum að halda samkvæmt því kerfi sem hafði verið byggt upp. Þá lækkuðu útgjöld ríkisins vegna barnabóta. En ekki er þar með sagt að barnabæturnar sjálfar hafi lækkað. Þetta er nákvæmlega eins og með skattinn áðan. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að rugla þessu ekki saman.

Það sem við erum að gera núna er að stórauka þessar bætur á hvern einstakling til viðbótar. Við setjum 2,5 milljarða aftur í það og minnkum tekjutenginguna sem Alþýðuflokkurinn tók upp á sínum tíma þegar erfiðleikar voru.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé á móti því að fella niður eignarskatt og hvort hún sé á móti því að lækka tekjuskatt um 4% og hvort hún sé á móti því að hækka barnabætur.