131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:30]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel vanlíðan hv. þingmanns, að honum líði ekkert vel við þessa umræðu. Maður finnur það og hálfvorkennir mönnum úr gamla Alþýðuflokknum að þurfa að standa í þessu. En það var skipuð nefnd til að fara yfir endurskoðun á öllu virðisaukaskattskerfinu, m.a. lækkun matarskatts. Það er stefna allra flokka á þinginu þannig að allir hljóta að vera ánægðir með það og sammála þegar þar að kemur. (Gripið fram í.) Það er varla nokkur spurning um það.

Ég átta mig samt ekki á einu, frú forseti, varðandi alla þessa umræðu um virðisaukaskattsmálið núna. Ég spyr hv. þingmann: Er hann með eða á móti á lækkun á tekjuskatti um 4 prósentustig? Er hann með eða á móti afnámi eignarskatts? Er hann með eða á móti hækkun á barnabótum? Við vitum að hann lagði það til ásamt flokki sínum og hann getur væntanlega svarað því. Er hann með eða á móti á lækkun á erfðafjárskatti? Er hann með eða á móti afnámi sérstaks tekjuskatts?

Ég vildi fá svör frá hv. þingmanns um þetta.

Varðandi tillögur Samfylkingarinnar, þá hljóma þær upp á 7,2 milljarða kr. Á móti ætla þeir ekki að lækka tekjuskatt, upp á 4,7 milljarða kr. þannig að þar munar 2,5 milljörðum kr. Ég gef ekkert fyrir tillögur sem menn skrifa út í loftið, um að fresta yfirfærslu á fjárheimildum og lækka útgjöld ráðuneytanna með einni skipun upp á 600 millj. kr., skera niður risnu upp á 600 millj. kr. eða lækka sérfræðikostnað upp á 1.200 millj. kr. Ég gef ekkert fyrir það. Menn skrifa þær tillögur í fljótræði seint að kvöldi.