131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:32]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flest okkar í þinginu hafi haft dálítið gaman af því hve óheyrilega mikil hamingja hefur fylgt þessum hugmyndum og hvernig lausnin á lífsgátunni hefur nánast legið á borðinu í formi skattalækkana. Að vísu eru þeir búnir að taka fyrir þeim annars staðar. Þeir taka það frá fólki sem þarf að sækja þjónustu heilsugæslunnar, með álögum á skólafólk, nemendur og fara út um víðan völl til að fjármagna þetta.

En mig langar að spyrja hv. þingmann: Er pláss fyrir miklu meiri hamingju? Er pláss fyrir meiri hamingju en þá 23 milljarða kr. sem hv. þingmenn hafa talað um? Eftir þessa umræðu á hinu háa Alþingi er flóttinn hafinn. Menn hafa talað um að beita skattkerfinu sem tekjujöfnunartæki og flóttinn er hafinn þangað sem stjórnarandstaðan vildi að ríkisstjórnin færi, þ.e. að lækka virðisaukaskatt. Við fögnum því vitanlega þótt við segjum nokkur varnaðarorð, sem er hlutverk stjórnarandstöðunnar að einhverju leyti. Við höfum áhyggjur af þenslu (Gripið fram í: Hvað um eignarskattinn?) og þið teflið á tæpasta vað með því sem þið hafið gert. Nú er ætlunin að ganga skrefinu lengra og við verðum að fylgjast mjög vandlega með því.

Varðandi þær spurningar sem hér hafa komið fram þá höfum við margoft farið yfir þær. Það er löngu búið að fjármagna þessar lækkanir með hækkunum annars staðar. Við höfum verið andvíg því, andvíg því að fara þá leið sem þið hafi farið, þ.e. að leggja byrðar á þá sem minna mega sín en létta byrðar þeirra sem meira hafa. Við höfum verið andvíg því.

En við erum lánsöm. Við erum svo lánsöm, virðulegi forseti, að sú stund mun renna upp að við þurfum að svara spurningum ykkar í atkvæðagreiðslu og þá mun ekki standa á okkur. En flóttinn er hafinn.