131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:37]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst merkilegt að verða vitni að því hvernig fulltrúar stjórnarmeirihlutans á Alþingi tala um sjálfa sig, hvernig þeir tala um handhafa framkvæmdarvaldsins, um ríkisstjórnina, um handhafa fjárveitingavaldsins, um fjárlaganefnd og Alþingi. Þetta er hið illa ríki sem vill komast með krumlurnar í peninga fólks til að geta ráðskast með þá, hið illa ríki og væntanlega einnig hinar illu bæjarstjórnir.

Hvað gera ríkið og bæjarstjórnir með peninga fólksins? Þeir eru notaðir til að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, fyrir skóla, fyrir gott samgöngukerfi, fyrir flugvelli og fyrir hafnir. Held ég að hv. þm. Gunnar Birgisson vilji ekki þessa hluti? Hann vill þá að sjálfsögðu. Hann vill vandaða skóla. Hann vill gott heilbrigðiskerfi. Hann vill góðar samgöngur, hafnir, flugvelli. En okkur greinir á um hvernig eigi að greiða fyrir þau gæði. Á að gera það í gegnum samneysluna eða með notendagjöldum, sem svo eru nefnd? Hvort eigum við að láta hinn heilbrigða greiða til heilsugæslunnar eða bíða eftir því að hann verði veikur og láta hann þá borga? Á að láta námsmenn og skólabörn greiða fyrir nám sitt í skólum? Þetta er hinn pólitíski ágreiningur sem við tökumst á um. Þegar hv. þingmaður talar um að hið illa ríki og hin illu sveitarfélög vilji komast með krumlurnar í peninga fólksins þá er hann í raun að tala um þetta.

Síðan leyfir hv. þm. Gunnar Birgisson sér að gera lítið úr atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hvað er það sem við viljum? Við viljum gott grunnkerfi, gott þjónustukerfi, góða samfélagsþjónustu og síðan, viti menn, viljum við treysta á (Forseti hringir.) frumkvæði einstaklinganna. Því gerir hv. þingmaður lítið úr og skopast að.