131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:39]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst hver atvinnustefna VInstri hreyfingarinnar – græns framboðs er. Það er alveg á hreinu. Það eiga allir að vinna hjá hinu opinbera. Það eru alveg hreinar línur. Þannig er stefnan.

Það koma ekki margar tímamótaræðu frá þeim flokki en hér kom þó ein. Í stuttu máli, til að þýða hana fyrir þá sem á hlýða, þá sagði hv. þingmaður að allir ættu að fá allt frítt á Íslandi. Hækka skattana, auka samneysluna, og gefa öllum allt frítt. Ekki borga fyrir neitt. Ekki borga fyrir neitt. Það að námsmenn greiði fyrir námið sitt telur hann náttúrlega alveg rosalegt. Svo þegar námsmenn koma til annarra landa þurfa þeir að borga skólagjöld í þá skóla og annað.

Maður er auðvitað alveg klár á því sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er að gera. Hún vill hærri skatta. Hún er skattahækkunarflokkur. Einn hv. þingmaður einn tjáði sig um það og sagði: Við erum skattahækkunarflokkur og við viljum auka samneysluna. Við viljum auka samneysluna. (Gripið fram í.)

Auðvitað þarf hið opinbera skatta til að standa undir grunnstarfsemi sinni. En hve langt á sú skattheimta að ganga? Á hið opinbera endalaust að fara í vasann og ná í meira og meira? Hvar eru mörkin? Getur hv. þingmaður sagt mér það? Getur hv. þingmaður sagt mér hver er atvinnustefna vinstri grænna?

Ég var ekki að gera lítið úr því að menn væru að tína fjallagrös og svoleiðis. Það er atvinna líka út af fyrir sig en menn þurfa að koma með einhver önnur rök en þessi. Það má ekki skjóta rjúpu, það er alveg bannað og menn geta ekki haft atvinnu af því fyrr en á næsta ári. En það er ljóst að það er mikill skoðanaágreiningur á milli mín og þessa flokks.