131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:37]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er farinn að hafa áhyggjur af hv. þm. Kristjáni L. Möller. Hann er svo reiður yfir því sem ríkisstjórnin er að gera, að lækka skattana á fólkið í landinu. Við erum að tala um einhverjar helstu skattalækkanir Íslandssögunnar og þá löggjöf sem hefur líklega mestu áhrif á kaupmátt Íslendinga til aukningar. Hv. þingmaður lætur og talar eins og við stjórnarliðarnir ættum að skammast okkar og helst ekki láta sjá okkur fyrir að vera að lækka skattana á fólkinu í landinu, þetta sé slíkt svínarí.

Mig langar til að leggja fjórar spurningar fyrir hv. þingmann sem ég óska eftir að hann svari. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi: Styður hv. þingmaður lækkun tekjuskatts á einstaklinga um 4%? Styður hann afnám eignarskatts? Styður hann hækkun barnabóta um 2,4 milljarða (Gripið fram í.) og hvað varð um jaðarskattastefnu Samfylkingarinnar sem boðuð var fyrir síðustu kosningar?