131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:15]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður Bjarni Benediktsson er hissa á að það vefjist enn fyrir þingmönnum hvort verið sé að lækka skatta, og það undir lok umræðunnar. Það er ekki skrýtið að það vefjist fyrir mönnum þegar menn skoða þær skattahækkanir sem dunið hafa á undanfarna daga.

Ef það er ekki pólitísk stefnumörkun hjá Sjálfstæðisflokknum að öll gjöld eigi að fylgja verðlagi sjálfkrafa þá er það sjálfstæð ákvörðun í hvert skipti að hækka gjöldin. Þegar lögð eru fram frumvörp um að hækka gjöldin þá hefur verið tekin um það sérstök ákvörðun hjá ríkisstjórnarflokkunum. Því er ekki óeðlilegt að við komum og segjum, í því peningalega góðæri sem ríkir hjá ríkissjóði: Með því að taka þessa ákvörðun hafa ríkisstjórnarflokkarnir hækkað gjöld og þar með álögur og skatta á fólk. Meðan sjálfstæðismenn eru í afneitun hvað þetta varðar þá þýðir ekki að ræða málin við þá.