131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:17]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kaus að svara ekki spurningu minni og ég verð að una við það.

Hv. þingmaður fór yfir lækkun tekjuskatts á einstaklinga og hjón og fór mikinn í talnarunu þeirri. Hann talaði um það sem ætti að gera til ársins 2007. Það er ansi langt þangað til árið 2007 kemur og langt fyrir fólk að bíða eftir því. Förum aðeins yfir hvað gerist árið 2005.

Maður með 150 þús. kr. tekjur lækkar um 1.500 í skatti á mánuði. Maður sem er með 700 þús. kr. tekjur lækkar um 14 þús. kr. í skatt á mánuði, maður með milljón lækkar um 23 þús. kr. í skatt á mánuði. Ef við lítum á 200 hæstu tekjuskattsgreiðendur á Íslandi og búum til einn meðalskattgreiðanda úr honum þá hafði hann tekjur upp á 22,7 milljónir kr. á síðasta ári. Skattar hans munu, miðað við tillögu ríkisstjórnar árið 2007 hafa lækkað um 2.365 þús. kr. á ári.