131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:23]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta er ekki hægt að segja annað en að það er greinilega engin samstaða um það innan Samfylkingarinnar hvort svigrúmið er til staðar eða ekki. Í það minnsta verður ekki annað ráðið af orðum hv. þingmanns en að ef gengið yrði til þess verks að lækka virðisaukaskattsþrepið neðra niður í 7%, eins og hugmyndir Samfylkingarinnar hafa hljóðað upp á, þá teldi hv. þingmaður ekki hægt (Gripið fram í.) að grípa til annarra skattalækkana sem kynntar eru í þessu frumvarpi. Enn flækjast því málin um þá skattastefnu sem tekist er á um í þingsal í dag.