131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:52]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Örlygssyni fyrir þessa spurningu. Í mínum huga er sú staða sem hann lýsir hér verkefni. Það segir sig sjálft. En þetta er miklu betra verkefni og skemmtilegra að takast á við en þegar við erum í niðursveiflu.

Þeim sem fara með stjórnina á hverjum tíma er auðvitað vandi á höndum eðli málsins samkvæmt. En þegar menn bera það saman, ég man það alveg að fyrir kosningar 1995 var, ja, ekki mikið atvinnuleysi á erlendan mælikvarða en á íslenskan mælikvarða, og þá var svolítið annað hljóð í strokknum. Það var gríðarlega erfitt, það var erfiður tími þegar aflabresturinn varð upp úr 1991. Núna erum við að takast á við mjög mörg tækifæri og erum auðvitað að uppskera eftir skynsamlega efnahagsstjórn og menn hafa staðið hér skynsamlega að hlutum. Það eru bara í mínum huga skemmtileg verkefni og ég held að við eigum að hafa ákveðna útgangspunkta. Útgangspunkturinn á að vera sá, virðulegi forseti, og ég er algjörlega sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað það varðar, að við keppum um fólk og fyrirtæki og að við eigum að hafa skattumhverfið í landinu eins og það gerist best í heiminum. Það er bara svo einfalt. Nú er það þannig að þeir eru fleiri í ár en í fyrra og þeir verða mun fleiri eftir nokkur ár sem geta algjörlega valið sér búsetu. (Gripið fram í.) Þetta er eitthvað sem við eigum að nálgast með jákvæðum hætti. Þess vegna erum við að lækka skatta, virðulegi forseti.