131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:58]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Kaupmáttur þjóðarinnar er enn að aukast með frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt sem nú er til umræðu og verður að lögum á morgun. Skattalækkanir voru eitt af stóru málunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þau loforð sem kjósendum voru gefin fyrir kosningar og við þau ætla stjórnmálaflokkarnir að standa.

Það var árið 1995 sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð og í samstarfi þeirra flokka hefur kaupmáttaraukning almennings verið um 40%. Miðað við efnahagsspár, að teknu tilliti til fjárlagafrumvarpsins, er gert ráð fyrir 55% kaupmáttaraukningu til ársins 2007, sem er stórkostlegur árangur í efnahagsstjórn.

Vegna umræðunnar fyrr í dag er eðlilegt að maður fari yfir frumvarpið enn og aftur en það nær til afnáms eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki, um 50% hækkunar barnabóta, 4% lækkunar tekjuskatts úr 25,75% í 21,75%, hækkunar persónuafsláttar um 8% og þar af hækka skattleysismörk um 20% eða úr 71 þús. kr. í 86 þús., sem er 20% hækkun hlutfallslega, svo og lækkunar vaxtabóta.

Á þessu kjörtímabili verður eignarskattur á einstaklinga og lögaðila felldur niður. Afnám eignarskatts mun koma sér vel fyrir eldri borgara og lífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og hafa í áranna rás greitt töluverða eignarskatta. Einnig mun þessi niðurfelling nýtast íbúðaeigendum vel. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og sennilega er þetta sá skattur sem verið hefur hvað umdeildastur í skattkerfinu. Tekjur ríkissjóðs munu lækka um 3,5–4 milljarða þegar þessi niðurfelling gengur eftir.

75% þeirra sem greiða eignarskatt eru eldri en 50 ára. Frumvarpið mun skipta um nafn, lögin verða ekki lengur lög um tekju- og eignarskatt heldur lög um tekjuskatt.

Einnig er um að ræða verulega lækkun á tekjuskatti, um 4% á næstu þremur árum, 1% árið 2005, 1% árið 2006 og 2% 2007. Þetta er mesta kaupmáttaraukningin og kjarabótin fyrir heimilin í landinu. Þegar tekjuskattslækkun verður komin að fullu til framkvæmda árið 2007 mun það kosta ríkissjóð 16 milljarða kr. Gífurlega sterk staða ríkissjóðs og góður og aðhaldssamur rekstur eru forsendur fyrir þessum skattalækkunum. Skattleysismörk munu hækka um 15 þús., úr 71 þús. í 86 þús., þ.e. um 20%. Þetta nýtist hlutfallslega langmest lágtekjufólki. Persónuafsláttur mun hækka um 8% sem svarar um 26.500 kr. á einstakling og tæplega 53 þús. á hjón á ári.

Hækkun barnabóta er veruleg. Í fyrsta lagi er verið að ræða um 50% hækkun ótekjutengdra barnabóta á tímabilinu, þar af hækki barnabætur um 25% í ársbyrjun 2006 til viðbótar þeim 3% sem gert er ráð fyrir árið 2005. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að í ársbyrjun 2006 verði 10% hækkun tekjutengdra barnabóta. Jafnframt er lagt til að viðverumörk vegna tekna tekjutengdra barnabóta hækki um 50% auk hinna 3%. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna hækkunar barnabóta nemur 2,4 milljörðum og verður 7,2 milljaðar 2007 miðað við verðlag dagsins í dag. Barnafjölskyldur og þó sérstaklega hinar tekjulægri munu njóta best mikillar hækkunar barnabóta.

Ég fagna jafnframt 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæð sjómannaafsláttar.

Virðulegi forseti. Það er mikill uppgangur á Íslandi í dag og ekkert bendir til annars en að hann haldi áfram. Hæstv. fjármálaráðherra hefur þegar greint frá því að horfur séu á 25% aukningu á landsframleiðslu á árunum 2003–2007 og að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 15%. Það er ljóst að við uppbyggingu stóriðju skapast hagvöxtur og tekjuaukning en jafnframt aukin einkaneysla og fjárfesting á íbúðamarkaði. Það er samt sem áður ljóst að það þarf að standa á bremsunni í rekstri ríkissjóðs, gæta mikils aðhalds til að hægt sé að sinna áfram öflugri samfélagsþjónustu en velferðarkerfi okkar er mjög öflugt.

Það var á árunum 1997–1999 sem tekjuskattur lækkaði um 4%. Árið 2002 lækkaði tekjuskattur á fyrirtæki um 12 prósentustig, þ.e. úr 30% í 18%. Viðbrögð við lækkun tekjuskatts á fyrirtæki voru mikil. Tekjur ríkissjóðs jukust en margir töldu að tekjutap ríkissjóðs vegna þessara aðgerða gæti orðið verulegt. Mér segir hugur um að það sama muni gerast með lækkun á tekjuskatti. Skattsvik munu minnka, skattgreiðendum mun vonandi fjölga töluvert og ríkissjóður mun fá hluta af þessari tekjuminnkun til baka. Það er lykilatriði að ná til þeirra aðila sem ekki hafa verið að greiða skatta og það hætti að vera spennandi að stela undan skatti þegar álögur eru svo lágar og þjónusta við almenning eins og best gerist. Það er ljóst að ef skattgreiðendum fjölgar ekki með þessum skattalækkunum þarf að herða enn frekar skatteftirlit. (JGunn: Strax.) Strax, segir hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég er sammála honum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hvernig stjórnarandstaðan bregst við einu besta frumvarpi sem komið hefur fram, frumvarpi þar sem verið er að lækka skatta á vinnandi fólki og styrkja hagvöxt heimilanna. Ég tek samt sem áður ofan fyrir vinstri grænum sem hafa verið sjálfum sér samkvæmir í þessari umræðu. Þeir lofuðu ekki skattalækkunum fyrir kosningar en aðrir stjórnarandstöðuflokkar lofuðu skattalækkunum kæmust þeir til áhrifa. Af hverju lofuðu þeir þessu? Þeir sáu (Gripið fram í.) að fjármálum ríkissjóðs og stjórn efnahagsmála hefur verið stýrt skynsamlega síðustu kjörtímabil í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Af hverju er ekki lag að lækka skatta eins og flestir stjórnmálaflokkar lofuðu? Er það of gott mál fyrir ríkisstjórnina? Það er mitt mat að það sé helsta skýringin eftir að hafa hlustað á ræður sumra hv. þingmanna í dag, þingmanna stjórnarandstöðunnar. Menn hafa ekki verið að lofa einhverju fyrir kosningar til að slá ryki í augu kjósenda. Það er nefnilega staðfesting á því að það voru forsendur til að lækka skatta hjá þeim sem mynduðu ríkisstjórn eftir síðustu alþingiskosningar. Því skil ég ekki alveg viðbrögð stjórnarandstöðunnar í þessu máli.

Þó að menn séu ekki sammála í öllum þeim málum sem lögð eru fram á Alþingi ættum við alþingismenn, allir sem einn, að fagna við þetta tækifæri. Við höfum náð árangri og ætlum að leyfa fólkinu í landinu, heimilunum að njóta alls af því sem við höfum verið að byggja upp saman, við Íslendingar. Við eigum að samfagna einum stærsta áfanga í skattamálum okkar.

Það er alltaf verið að ræða um hina efnameiri, að hinir efnameiri fái meira og hinir efnaminni minna. Þeir sem njóta þessara skattalækkana eru þeir sem greiða skatta, vinnandi fólk sem stendur undir velferðarkerfinu. Það er rétt að þeir sem eru með hærri tekjur fá meiri lækkun í krónum en þeir sem eru með lægri tekjur fá meiri lækkun í prósentum. Því tel ég að þessar skattalækkanir verði mikil kjarabót fyrir þá sem eru með lág laun, barnafólk og millitekjufólk. Umræðan um að þeir tekjuhærri fái meiri afslátt er aðalmálið. Er ekki eðlilegast að þeir sem borga mesta skatta fái meiri afslátt? Þeir borga langtum fleiri krónur í skatta og hlutfallslega meira.

Ef við tökum í dag dæmi um hlutfall launa í skatt greiðir aðili með 100 þús. kr. á mánuði 8% í skatt, aðili með 150 þús. kr. á mánuði 17,2%, aðili með 500 þús. kr. á mánuði 30,9% og aðili með milljón á mánuði 32,7%. Aðili með 500 þús. kr. mánaðarlaun greiðir 18-faldan skatt þess sem er með 100 þús. á mánuði þótt launin séu 5 sinnum hærri í krónum talið. Maður með milljón á mánuði greiðir 13-faldan skatt þess sem er með 150 þús. á mánuði þótt launin séu tæplega sjöfalt hærri. Ég segi: Hvar eigum við að setja mörkin ef menn vilja breyta þessu? Eigum við að vera með vinnuletjandi kerfi?

Ég hef á tilfinningunni miðað við ræður sumra þingmanna stjórnarandstöðunnar að tvennt vanti í þetta frumvarp, að þeir sem ekki greiða skatta eigi að fá skattalækkun og þeir sem ekki eiga börn eigi að fá barnabætur.

Virðulegi forseti. Sem dæmi um áhrif þessara aðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með eitt barn undir 7 ára aldri og 125 þús. kr. tekjur á mánuði hækka um 12.500 kr. á mánuði, þ.e. 150 þús. kr. á ári. Það eru 10%. Ráðstöfunartekjur hjóna með 300 þús. tekjur á mánuði samanlagt og tvö börn, annað yngra en 7 ára, hækka um 23.500 á mánuði, þ.e. 282 þús. á ári. (Gripið fram í.) Þetta eru 9,5%. Það er þegar annað er eldra en 7 ára og hitt yngra þannig að þetta skiptist nokkuð jafnt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. 1+1=2, hv. þingmaður. Heildaráhrif þessa frumvarps veita 4,5% hækkun ráðstöfunartekna allra heimila í landinu.

Ég ætla í lokin að fara yfir nokkrar staðreyndir miðað við breytingu á tekjuskatti á verðlagi dagsins í dag til ársins 2007. Þar miða ég við heildartekjur hjóna þar sem bæði skattkort eru nýtt enda er heimild til þess að maki geti nýtt skattkort 100% en ekki er tekið tillit til lífeyrisgreiðslna 4%.

Hver eru launin árin 2004, 2005, 2006 og 2007 þar sem hjón greiða enga skatta? Árið 2004 eru þau 141.804 kr., árið 2005 149.924 kr., árið 2006 157.850 kr., árið 2007 170.681 kr. Ef við miðum bara við breytinguna frá árinu 2004 til 2007, miðað við 200 þús. kr. laun, borgar launþegi árið 2004 22.569 kr. og hann fær 88,7% útborgað af laununum en árið 2007 borgar hann 10.197 kr. í skatt og fær útborguð 94,9% af launum. Aðili með 250 þús. kr. borgar 41.959 kr. í skatt árið 2004 og fær útborgað 83,2% af launum á móti 89% 2007. Þá borgar hann 27.587 kr. í skatt. Hjón með 300 þús. borga í skatta á mánuði 2004 61.349 og fá útborgað 79,6% launa. Árið 2007 borga þau í skatt 44.977, eru að fá útborgað 85% af launum. Þetta er mikil breyting.

Virðulegi forseti. Það hefur vakið mikla athygli í umræðunni að verið er að blanda hátekjuskattinum inn í hana. Hann á að falla út í samræmi við upprunalegar áætlanir en hann var upphaflega lagður á í stjórnartíð Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks og þá var sérstaklega tekið fram að þetta væri tímabundin aðgerð og að hann yrði lagður af um leið og efnahagsástandið leyfði það. Nú er komið að því. Það kemur því á óvart að sumir hv. þingmenn sem hafa lagt áherslu á að sjómannaafsláttur verði að vera áfram til staðar í skattkerfinu vilji hafa hátekjuskattinn áfram. Ef það er einhver starfsstétt sem hefur greitt hlutfallslega mikið í hátekjuskatt eru það sjómenn. Þeir eru 12,5% á árinu 2003. Það voru 14.589 einstaklingar sem greiddu hátekjuskatt árið 2003. Sjómenn voru 1.813, 12,5%. Þeir eru einnig með hærri meðalgreiðslu í þessu kerfi, hátekjuskattinum, 4% hærra en meðaltalið. Hlutfall sjómanna af heildarfjöldanum sem greiðir tekjuskatt er 5,2% en þeir eru 12,5% sem greiða hátekjuskatt. Þetta er sú starfsstétt sem nýtur þess mest að hátekjuskattur skuli lagður af og margir sjómenn borga langtum meiri hátekjuskatt en sem nemur nýtingu á sjómannaafslætti. Þar er töluverður munur á.

Við skulum taka annan hóp Íslendinga. Hvað haldið þið að margt vel menntað og ungt fólk sem hefur lagt mikið undir og fórnað mörgum góðum árum í að mennta sig — þetta fólk hefur skuldbundið sig til margra ára með námslánum og fleiru, kemur vel menntað inn á atvinnumarkaðinn og þorri þess þarf mjög góð laun sem er eðlilegt — er þetta fólkið sem á að lenda í hátekjuskatti aftur? Þetta fólk er búið að koma sér þaki yfir höfuðið og er að borga af því líka. Þetta eru miklar álögur og ég bara fagna því að þetta frumvarp hefur góð áhrif.

Einnig hefur verið komið inn á stöðu sveitarfélaga. Ég ætla ekki að fara djúpt í þá umræðu en ég hef gagnrýnt það sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma að frumvörp hafa farið í gegnum Alþingi, hvort sem þau eru frá stjórn eða stjórnarandstöðu, og tillögur sem enginn verðmiði er á. Í dag var rætt um frumvarp um gjaldfrjálsan leikskóla. Það frumvarp finnst mér á yfirborðinu mjög klókt mál pólitískt en ég segi: Hver er verðmiðinn á þessu frumvarpi ef það næði fram að ganga? Ég ætla að lesa minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ég er þess alveg fullviss að þeir aðilar sem fluttu frumvarpið hafa ekki gert sér grein fyrir öllum þessum tölulegu staðreyndum sem koma við útreikninga síðar meir en það eru náttúrlega — ég hef gagnrýnt það sjálfur sem bæjarstjóri í Eyjum. Þá komu mörg frumvörp í gegn sem kostuðu sveitarfélögin peninga og það er alveg ljóst að það bara gerist í kerfinu. (Gripið fram í.) Ég ætla að lesa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, reyndar ekki beint umsögn, frekar minnisblað sem félagsmálanefnd fékk. Með leyfi forseta:

„Þá kemur fram í greinargerðinni að innheimt leikskólagjöld hafa verið 2.400 milljónir árið 2001 og það sé sú fjárhæð sem bæta þurfi sveitarfélögunum. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ef þessi áform ná fram að ganga má slá því föstu að því fylgi skylda sveitarfélaga til að tryggja öllum börnum vist í leikskóla. Það mun leiða til þess að byggja þarf gríðarlegt magn leikskólarýma. Á árinu 2002 voru samkvæmt gögnum Hagstofunnar 16.282 börn í leikskólum landsins. Börn á leikskólaaldri voru hins vegar 25.149. Gert er ráð fyrir að þau komi inn 10 mánaða gömul og séu til ágústloka á 6. aldursári. Þar af leiðandi er ljóst að 8.867 börn á leikskólaaldri voru ekki með pláss í leikskóla árið 2002.

Í reglugerð nr. 225/1995 sbr. reglugerð nr. 365/2001 kemur fram að húsnæði leikskóla skuli miða við 6,5 fermetra brúttó fyrir hvert barn samtímis í leikskóla utan þess tíma sem hópar skarast. Til að sinna þörfinni fyrir öll þessi 8.867 börn þyrfti því að byggja 57.635 fermetra af leikskólarými en slíkt mundi kosta um 11,5 milljarða kr. miðað við 200 kr. á fermetra. Þá er reksturinn eftir en gera má ráð fyrir því að langstærstur hluti þessara barna sé í yngsta aldurshópnum þar sem starfsmannafjöldi þarf að vera allt að 2,5-faldur á við elstu börnin. Kostnaður vegna reksturs þessa viðbótarrýmis verður því mun hærri en meðaltal rekstrarkostnaðar í dag. Nærri má geta að rekstrarkostnaður verði um 7,5 milljarðar kr. á ári að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar. Er það miðað við að börnum muni fjölga um rúmlega 50% og að kostnaður vegna þeirra verði mun meiri en meðalkostnaður er í dag. Það er því eðlileg áætlun að þessi 50% fjölgun barna leiði til 75% aukningar á kostnaði sem er rúmlega 10 milljarðar. Það eru 7,5 milljarðar á ári.“

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Möller ræddi um íbúaþróun í Vestmannaeyjum og sjávarútvegsplássum og skatta sem Eyjamenn greiddu í viðbót, það er sennilega út af tryggingagjaldinu sem hann á við það, en það er alveg ljóst að höfuðborgarsvæðið togar til sín fólk af landsbyggðinni og það er ljóst að fólki hefur fækkað mikið. Þar erum við að tala um mikla hagræðingu, tæknivæðingu og sameiningu fyrirtækja. Það má segja að í Vestmannaeyjum sé samspil á milli fækkunar fólks í fiskvinnslu og fækkunar íbúa, það er svo til sama línan. Þetta eru miklar breytingar frá því sem var í gamla daga í Vestmannaeyjum og á Siglufirði. Það þekkir hv. þm. Kristján Möller vel.

Það er eitt mál sem er kannski enn stærra mál líka. Í gær ræddum við hér um samgöngumál í Vestmannaeyjum í utandagskrárumræðum. Það eru komnar meiri kröfur og það er ekki síst yngra fólk sem gerir ríkari kröfur um bættar samgöngur. Ég og hv. þm. Kristján Möller erum miklir áhugamenn um jarðgöng og ég get sagt það hér að eina sóknarfærið fyrir Vestmannaeyjar er jarðgöng. Aðrar samgöngubætur bjóða ekki upp á sóknina fyrir okkur. Við erum það háð samgöngum og ég vona að hv. þingmenn sem hér hlusta á mig séu stuðningsmenn mínir í þessu mikla máli. (Gripið fram í.) Já, þannig er það líka.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé eitt mikilvægasta frumvarp sem lagt hefur verið fram fyrir heimilin í landinu. Þetta er kjarabót þar sem ráðstöfunartekjur heimila munu aukast verulega. Við erum að leyfa skattgreiðendum þessa lands sem byggt hafa upp velferðarkerfi okkar að njóta arðs af mikilli velgengni af styrkri efnahagsstjórn síðustu ára og því ber að fagna. Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals þar sem ég óska Íslendingum til hamingju með þessar skattalækkanir.