131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:27]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að vera búinn að fá hingað upp mikinn áhugamann um jarðgöng til Vestmannaeyja. Það er alveg ljóst að ef byggja á jarðgöng á milli lands og Eyja er þetta einkaframkvæmd. Miðað við alla útreikninga sem greiningardeild Íslandsbanka hefur gert, og ég hef skoðað það reiknilíkan, eru menn að ræða um að fá sömu upphæð frá ríkinu og menn borga í dag í rekstur Herjólfs og í afborganir og vexti af nýju skipi. Það er ekki flóknara. Það eru 433 millj. á ári. Ef við ætlum að byggja upp nýjan Herjólf sem á að ganga 20–22 mílur miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag mun reksturinn á því skipi og afborganir og vextir verða rúmar 600 millj. á ári.

Ég veit að Eyjamenn eru tilbúnir að borga töluvert fyrir að keyra á milli. Það mun kosta 3.500 kr. fyrir bílinn á milli auk virðisauka. Við munum líka hafa tekjur í viðbót út af þessu. Við þurfum að koma vatnsleiðslu og rafmagnsleiðslu milli lands og Eyja. Það er ekki verið að tala um að rugla samgönguáætlun. Þetta er alveg sjálfsagt mál. Þess vegna er maður mjög smeykur við þá umræðu varðandi Hvalfjarðargöngin að láta ríkið yfirtaka þau, þá dettur út öll einkaframkvæmd í landinu og passa verður að það gerist ekki.

Varðandi stöðu sveitarfélaganna er í gangi viðræðunefnd varðandi tekjuskiptingu. Hún þarf að ljúka störfum. Það er mikil umræða um þetta og ég varð sérstaklega var við það þegar ég var í nefnd um sameiningu sveitarfélaga um stöðuna og breytinguna. Ljóst er að mestu kröfur sveitarfélaganna í dag varðandi sameiningar eru samgöngumál. Það eru mestu kröfur sveitarfélaganna því sum sveitarfélög eru ekkert spennt fyrir því að yfirtaka hluta af rekstri sem ríkið hefur verið með. Það er alveg ljóst. Menn eru smeykir við það því nærþjónustan kostar meira og meira, við sjáum það t.d. með rekstur grunnskólanna.