131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:29]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einn maður úr stjórnarliðinu er mjög andvígur einkaframkvæmdum. Sá maður heitir Gunnar Birgisson, hv. þingmaður og forseti bæjarráðs í Kópavogi. Hvers vegna skyldi hann vera andvígur einkaframkvæmdum?

Hv. þm. Gunnar Birgisson er bisnessmaður og hefur bisnessvit. Hann lætur ekki plata sig. Hann veit sem er að einkaframkvæmdin er dýrari kostur fyrir notandann en framkvæmd á vegum hins opinbera. Þetta getum við t.d. fengið staðfest hjá stjórnarmönnum Spalar sem stóðu að Hvalfjarðargöngunum. Þeir hafa staðfest að þetta er dýrari kostur. Staðreyndin er sú að í sumum tilvikum kann einkaframkvæmd að eiga rétt á sér, sérstaklega er það skiljanlegur valkostur fyrir sveitarfélög eða aðila sem eru svo aðkrepptir að þeir neyðast til þess að fara út í dýrari framkvæmd með það fyrir augum að fjárfestingin borgi sig síðar.

Í annan stað kann það að vera réttlætanlegt ef notandinn á um tvo valkosti að velja eins og má segja að eigi sér stað í Hvalfirði þar sem hægt er að velja á milli þess að fara göngin og keyra Hvalfjörðinn. Ég veit ekki hvort hið sama yrði upp á teningnum með göngin til Vestmannaeyja.

Aðalatriðið í málflutningi mínum er þetta: Ég nefndi Vestmannaeyjagöngin sérstaklega sem dæmi um framkvæmd sem yrði alla vega að verulegu leyti á vegum hins opinbera. Það er samhengi á milli þess að skerða tekjur ríkissjóðs eða sveitarfélaga og hins að krefjast aukinnar þjónustu, hvort sem það er í samgöngum eða á öðrum sviðum, í skólamálum, í heilbrigðiskerfinu eða annars staðar.