131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:31]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get kannski verið sammála því að einkaframkvæmd geti verið dýrari. Það er sérstaklega erfiðara varðandi vaxtakjör. Það er alveg ljóst. Ég tel að þessi framkvæmd mundi ekki ganga eftir nema að hægt væri að fá ríkisábyrgð sem kæmi á móti framlaginu til svona 60 ára. Þá gengur dæmið upp. Þetta er lykilatriði. Það er í lögunum að virðisaukaskattur er endurgreiddur. Það er virðisaukaskattur núna á gjöldunum í gegnum Hvalfjarðargöngin. Hann er 14% og fer vonandi niður í 7%. En ég er heldur ekki að tala um að menn fari þetta nema að þetta séu tölulegar staðreyndir og þetta gangi eftir. Ég er ekki að tala um 38 milljarða í dag. Það er of erfitt í dag. En við þurfum að láta reyna á þetta með útboðið. Svo er það lykilatriðið í þessum útreikningi. Maður sér bara hvað 0,5% í vaxtamismun gerir og það getur ráðið úrslitum. Því er mjög gott að ríkið sé á hliðarlínunni til að styrkja okkur í þessu máli til að þetta gangi eftir.