131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:36]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um þetta dæmi sem ég tók. Ég spurði einfaldlega: Er sú skattkerfisbreyting sem ég lýsti og finnst í þingskjölum sanngjörn gagnvart atvinnurekstri á höfuðborgarsvæðinu á móti landsbyggðinni? Er gætt jafnræðissjónarmiða við þessa skattkerfisbreytingu?

Aðra spurningu, virðulegi forseti, langar mig að leggja fyrir þingmanninn sem ég ræddi um og ég hlustaði á. Hún er varðandi þá lækkun eignarskatta sem koma fram í því frumvarpi sem við erum nú að ræða, þ.e. um lokaniðurfellingu í eignarskattinum. Ég fjallaði um það í ræðu minni að þetta eru 1.700 millj. kr. á höfuðborgarsvæðinu en 120–130 millj. kr. í hverju landsbyggðarkjördæminu. Er þarna líka verið að gæta jafnræðis eða hefði verið ástæða til þess, virðulegi forseti, að landsbyggðarþingmennirnir í stjórnarflokkunum sýndu dug og berðust fyrir landsbyggðina þannig að á fólk þar hefðu verið lækkaðir verstu skattarnir, landsbyggðarskattarnir, sem lagðir eru þar á?

En spurning mín, virðulegi forseti, til hv. þingmanns er eingöngu þessi: Var jafnræðis gætt við breytingar á skattkerfi lögaðila og er jafnræðis gætt nú þegar verið er að leggja niður restina af eignarsköttunum?