131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:38]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er senn að ljúka umræðu um skattamál og þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur markað í skattamálum til ársins 2007 sem mun auka kaupmátt alls almennings allverulega. Umræðan hefur verið nokkuð fróðleg en jafnframt villandi þar sem stjórnarandstaðan hefur reynt að draga upp allt aðra mynd af áformum ríkisstjórnarinnar, en þar tala staðreyndir sínu máli.

Mig langar í örstuttu máli og stuttri ræðu minni að fara örstutt yfir þau áform sem ríkisstjórnin hefur um skattalækkanir. Þó það hafi komið oft fram í dag þá virðist það því miður bera við að stjórnarandstaðan kemur jafnharðan upp og málar allt aðra mynd úr þessum ræðustóli og talar allt annað tungumál en við stjórnarliðar.

Í fyrsta lagi er um að ræða lækkun eða afnám eignarskattsins. Það er aðgerð sem bætir sérstaklega hag eldri borgara í landinu. Um helmingurinn af lækkun eignarskattsins rennur til eldri borgara, þjóðfélagshóps sem er með 1,5 millj. kr. í laun á ári eða minna. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað eins og að um milljarðamæringa sé að ræða þegar talað er um þetta gamla fólk, að þetta fólk búi í höllum úti í bæ. (Gripið fram í: Hvað með matarskattinn?) Það er bara rangt. Staðreynd málsins er að eldra fólk býr oftar en ekki í skuldlausu húsnæði. (Gripið fram í: Hvað með matarskattinn?) Hér úti í bæ býr eldri kona í þriggja herbergja íbúð sem er engin höll. Ég vil að það komi hér fram því hv. stjórnarandstæðingar tala þannig að halda mætti að allt þetta eldra fólk búi í einhverjum höllum út um allan bæ. En þessi eldri kona sem býr í þriggja herbergja íbúð sem er 15 millj. kr. virði ... (Gripið fram í: Er hún í ríkisstjórninni?) Ég vil biðja hv. þingmann að gefa mér örlítið svigrúm. (Gripið fram í.) Hún býr í 15 millj. kr. íbúð, þriggja herbergja íbúð. Ég veit ekki hvort stjórnarandstaðan vill kalla það höll. Hvað borgar sú kona á ári í eignarskatt (Gripið fram í: ... alltaf að tala um eldri konur?) sem er með milljón kr. í árstekjur? (Forseti hringir.)

(Forseti (JBjart): Nú sér forseti ástæðu til að biðja hv. þingmenn um að gæta hófs í frammíköllum og leyfa hv. þingmanni að halda ræðu sinni áfram ótrufluðum.)

Ég þakka, hæstv. forseti. En ég var að tala um þessa eldri konu, frú forseti, sem hefur einungis um milljón kr. í árstekjur. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hv. stjórnarandstöðu finnist það vera góðar tekjur. En hvað erum við að bæta tekjur þessarar konu um mörg prósent á ári? Þessi kona borgar 60 þús. kr. á ári í eignarskatt af íbúð (Gripið fram í.) sem hún hefur eignast af sínum eigin launum sem hún hefur þegar borgað skatt af. Það eru 60 þús. kr. fyrir þessa eldri konu. Stjórnarandstaðan leggst gegn þessu sem er miður og ég mun fara nánar út í tillögur stjórnarandstöðunnar í skattamálum í minni stuttu ræðu á eftir.

Við höfum líka ákveðið að hækka barnabætur um 2.400 millj. kr. Það var kosningamál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar að miða að því að stórhækka barnabætur. Þessar barnabætur munu sérstaklega gagnast lágtekjufólki og millitekjufólki. En hér talar hv. stjórnarandstaða um að þessar tillögur munu eingöngu gagnast þeim sem meiri hafa tekjurnar. Þetta er bara ekki réttur málflutningur og það versta er að hv. stjórnarandstæðingar vita að þeir fara með rangt mál því að staðreyndirnar tala sínu máli. 2.400 millj. munu sérstaklega renna til lágtekjufólks og millitekjufólks, (Gripið fram í: Á næsta ári?) sérstaklega.

Í þriðja lagi stefnir ríkisstjórnin að því að lækka tekjuskattsprósentuna um 4%. Hvaða áhrif hefur slík lækkun tekjuskattsprósentunnar á persónuafsláttinn? Hún hækkar persónuafsláttinn um 15 þús. kr. og ég veit ekki betur en að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi sumir stjórnmálaflokkar lofað íslenskum almenningi 10 þús. kr. hækkun á persónuafslætti. Hér erum við að hækka persónuafsláttinn um 15 þús. kr. og þvílíkt óréttlæti og þvílíkur ójöfnuður. Því miður er öllu snúið á haus í þessari umræðu. Hverjum mun þessi 4% skattalækkun gagnast einna helst? Jú, ungu skuldsettu fólki sem er að koma úr kostnaðarsömu námi, þarf að vinna mikið og þarf að hafa há laun. Hv. þingmenn tala um jaðarskattana, að við verðum að eyða jaðarsköttunum. Við erum akkúrat að eyða jaðarsköttunum á þessum hópi með þessari aðgerð. Svo koma hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, lesa hér upp úr Frjálsri verslun og tala um 200 einstaklinga. Það mætti stundum halda að stjórnarandstaðan sé að leggja til að setja sér skattalög á 200 tekjuhæstu mennina í landinu, að eitthvað annað eigi að gilda um þá en hinn almenna borgara. Slíkur málflutningur gengur ekki. Við erum fyrst og fremst að þjóna mjög stórri heild, millitekjufólkinu í landinu, með lækkun á tekjuskattsprósentu. En því miður hefur stjórnarandstaðan í þessari umræðu alfarið lagst gegn þessari lækkun á tekjuskattsprósentunni og það er miður.

Hæstv. forseti. Í tengslum við þessa umræðu talar hv. stjórnarandstaða um niðurskurð í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það er alveg sama hversu oft við hv. stjórnarliðar komum hér upp og segjum að í langtímaáætlun í ríkisfjármálum sé gert ráð fyrir 3% raunaukningu til heilbrigðis- og menntamála fram til ársins 2008. Það er stefnumið ríkisstjórnarinnar. En þá koma hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar og tala um niðurskurð í velferðarþjónustunni, niðurskurð í framlögum til velferðarmála. Þetta er rangt. Framlög til velferðarmála munu aukast að raungildi um 5% á næsta ári og ég fullyrði að aldrei hefur verið lögð jafnmikil áhersla á velferðarkerfið og í tíð núverandi ríkisstjórnar. Við höfum aldrei varið eins miklum fjármunum til velferðarkerfisins. Það hefur engin ríkisstjórn staðið sig betur í fjárframlögum til slíkra málaflokka en núverandi ríkisstjórn. Og alltaf stendur upp úr hv. stjórnarandstæðingum: Hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum og B-deildin í Sjálfstæðisflokknum. Framsókn fylgir með.

Ætlast hv. stjórnarandstaða til að hægt sé að taka slíkan málflutning alvarlega? Það er ósköp eðlilegt að allt venjulegt fólk í samfélaginu sé farið að sjá í gegnum þannig málflutning. Það er alltaf á móti öllu, það er allt svo ómögulegt, það er alltaf allt að springa í efnahagskerfi þjóðarinnar. En þessi ríkisstjórn hefur ríkt í 10 ár og hún hefur staðist þetta próf fram á þennan dag, reyndar með því að taka stundum óvinsælar ákvarðanir. Ég hef orðið var við að þegar þrýstihópar fara af stað í þjóðfélaginu, þá stekkur stjórnarandstaðan til og hleypur eftir kröfum þeirra. Stjórnarandstaðan gagnrýnir líka niðurskurð í vegamálum. Það er alveg rosalegt að við skulum vera að skera niður eða fresta framkvæmdum í vegamálum. Svo kemur hver stjórnarandstæðingurinn á eftir öðrum og talar um aðhald í ríkisfjármálum og að menn þurfi að gæta stöðugleikans. Þvílíkur málflutningur út og suður. Það er ekki hægt að (Gripið fram í.) bjóða hv. þingmönnum á Alþingi slíkt. Við hljótum að fara fram á að menn tali einni röddu, að stjórnmálaflokkar hafi ákveðna stefnu, m.a. í skattamálum sem við ræðum hér. Og mig langar að koma örlítið að stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málum og þá sérstaklega stjórnarandstöðunnar, en það má Vinstri hreyfingin – grænt framboð eiga að hún er samkvæm sjálfri sér í öllum málflutningi sínum. Þeir hafa ekki hnikað af sinni braut í því að ekki beri að lækka skatta, telja jafnvel að frekar ætti að hækka skatta til að standa vörð um velferðarkerfið. Þannig er málflutningur þeirra.

Hæstv. forseti. Hver er svo málflutningur Samfylkingarinnar, þessa ábyrga stjórnmálaafls? (ÖS: Lækka matarskattinn.) Jú, það er rétt sem hv. formaður Samfylkingarinnar kallar hér fram í, það er víst stefna Samfylkingarinnar að lækka matarskattinn um 7% á næsta ári, (Gripið fram í.) strax á næsta ári, segir hv. formaður Samfylkingarinnar. Það eru bara 5 þúsund millj. Hvað vill svo Samfylkingin gera til viðbótar því? Ég vek athygli hv. þingmanna á því að hinn sami formaður Samfylkingarinnar treysti sér varla til að fara í nokkrar skattalækkanir þegar skattafrumvarpið var kynnt. Það væri varla tímabært miðað við núverandi ástand.

Hálfum mánuði síðar eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar komnir með tillögu um 5 þús. kr. lækkun á matarskattinum, strax á næsta ári. 2.400 millj. í hækkun barnabóta. Reyndar eru það ekki bara 2.400 millj. því að núverandi barnabótakerfi miðast við 16 ára aldur, en hv. Samfylking gerir enn betur. 18 ára aldur skal það vera, ætli það séu ekki svona 2.600–2.700 millj. svo ég slái á einhverja tölu. Þá erum við komnir, hv. þingmenn, upp í 7.600 millj. í skattalækkun strax á næsta ári.

Síðan hefur Samfylkingin aldeilis kúvent í afstöðu sinni til eignarskattsins. Það kom ekki til greina að Samfylkingin samþykkti tillögu stjórnarflokkanna hvað það varðar. En nú er Samfylkingin allt í einu hrokkin í baklás og komin með tillögu um að setja ákveðin eignamörk á eignarskattinn og trúlega mun sú tillaga kosta um 1.000 millj., hafi ég skilið málflutning Samfylkingarmanna rétt. En það er kannski eins og margt annað í þessu að hér er ekkert áþreifanlegt þó að Samfylkingin ætli nú aldeilis að þjóna íbúum landsins, í allri umræðunni um að stöðugleika vanti í íslensku þjóðfélagi. Hún hefur lagt til um 9 millj. kr. skattalækkun á næsta ári, strax á næsta ári, en fjargviðrast svo úr ræðustóli Alþingis um að ástandið í efnahagsmálum sé ótryggt. Hvar er trúverðugleikinn?

Í 1. umr. um skattamál á Alþingi kom ekkert fram hjá Samfylkingunni um að hún ætlaði að verja einhverjum fjármunum til þess að lækka eignarskattinn. Svo heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar umræðuna í þjóðfélaginu, hve þetta sé ósanngjarnt, m.a. gagnvart eldri borgurum. Þá er ekkert mál að ákveða nú þegar að verja einum milljarði til að lækka eignarskattinn strax á næsta ári, alveg óháð stöðunni í efnahagslífi þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Í dag hefur jafnframt komið ný tillaga frá Samfylkingunni í skattamálum, frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er því miður ekki hér nú. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir tók eilítið undir það í ágætri ræðu sinni í kvöld sem var mjög lágstemmd og að mörgu leyti málefnaleg ræða, en inntak í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu lækkað skatta á fyrirtækin í landinu á kostnað lágtekjufólksins. Þó hafa skattgreiðslur til ríkissjóðs margfaldast frá þessari breytingu. Það er alveg ljóst samkvæmt þessum málflutningi að Samfylkingin, eða a.m.k. hluti af henni vill hækka skatta á fyrirtækin í landinu. Trúlega mun einhver hv. þingmaður koma upp á eftir og mótmæla þessari fullyrðingu en með þeim hætti talaði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir í dag, að lágir skattar á fyrirtækin í landinu bitnuðu á lágtekjufólkinu. (JGunn: Sagðist hún ætla að hækka þá?)

Ég spyr hæstv. forseta, ætlast kannski ekki til að svar komi: Hvernig á að túlka svona orð? Er verið að tala upp í eyrun á ákveðnum þjóðfélagshópi? Hvað á svona málflutningur að þýða? Ég túlka þennan málflutning á þann veg að hv. þingmaður leggi til að við hækkum skatta á fyrirtækin í landinu og væntanlega eigi þeir fjármunir að renna í aðra vasa.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Möller, sem því miður er ekki hér, talaði í ræðu sinni í kvöld um að það hefði verið sjálfgefið hvernig það svigrúm varð til sem nú gefur tilefni til þeirra ábyrgu skattalækkana sem ríkisstjórnin er að fara í — ekki þeirra óábyrgu skattalækkana sem Samfylkingin leggur til. Í fyrsta lagi ákvað ríkisstjórnin að fara í mjög umtalsverða atvinnuuppbyggingu á Austurlandi sem hefur aukið mjög hagvöxtinn í landinu.

Í öðru lagi höfum við mjög fastmótað sjávarútvegskerfi sem hefur getið af sér mörg mjög öflug sjávarútvegsfyrirtæki víða um land sem hafa skilað tugum milljarða til ríkissjóðs á umliðnum 10–15 árum. Við rekum arðbært fiskvinnslukerfi, sjávarútvegskerfi sem skilar hagvexti í þjóðarbúið.

Hæstv. forseti. Hvernig var það með þessi tvö mál sem hafa að miklu leyti knúið áfram hagvöxtinn í íslensku samfélagi? Jú, Vinstri grænir voru mjög einarðlega á móti uppbyggingu stóriðju á Austurlandi og hafa bent á ákveðin ruðningsáhrif, ákveðnar aðgerðir sem ríkisstjórnin þarf trúlega að bregðast við í kjölfarið af, svo sem með frestun vegaframkvæmda og öðru slíku. Samfylkingin hafði þrjár skoðanir á málinu. Hún var með, hún sat hjá og hún var á móti. Hæstv. forseti. Ég spyr því hv. þingmenn í þessum sal: Hver væri staðan í dag ef þessir þingflokkar, Vinstri grænir og Samfylking hefðu verið við völd á síðasta kjörtímabili? Værum við að horfa á einhverja uppbyggingu í stóriðju á Austurlandi? Ég er ansi hræddur um ekki. Værum við að horfa á að við byggjum við núverandi sjávarútvegskerfi? Alveg örugglega ekki.

Fyrir síðustu kosningar lofuðu þessir flokkar að þeir ætluðu að fara svokallaða fyrningarleið sem var reyndar mjög mismunandi á milli flokkanna. En við verðum að gefa okkur það að hefðu þeir náð meiri hluta fyrir síðustu alþingiskosningar þá hefðu þeir náð einhverjum málamiðlunum um 5 eða 7% fyrningu á kvóta íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Hvaða áhrif hefði það haft á efnahagslíf landsins? (PHB: Almáttugur.) Almáttugur. Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals. Almáttugur. Og vegna umræðunnar sem ég átti áðan við hv. þm. Kristján L. Möller, spyr ég hv. þingmenn Samfylkingarinnar: Hver er stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum? Það er mjög mikilvægt að íslensk þjóð viti hver stefna Samfylkingarinnar er í sjávarútvegsmálum.

Ég fór í andsvar við hv. þm. Kristján L. Möller áðan og spurði hv. þingmann þessarar spurningar í tvígang. Hv. þingmaður gaf mér engin svör. Ég hef reyndar áður farið í andsvör við hv. þingmann um sama málefni og ég hef ekki heldur fengið svör. (Gripið fram í.) En þannig er það nú. Ég ætlast til, þar sem ég sé hér í hliðarherbergi hv. formann Samfylkingarinnar, þann ágæta mann Össur Skarphéðinsson, að hann komi upp í andsvar og svari því hver stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum sé, því hún er nokkuð óljós, en það er kannski ekki það eina sem er óljóst í stefnu Samfylkingarinnar. Við erum að tala um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og síðan erum við að tala um skattamálin í mjög víðu samhengi en ég held að það væri mjög viðeigandi að við fengjum útlistanir hv. þingmanna Samfylkingarinnar á stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum.

Hæstv. forseti. Það hefur mikið verið ráðist á okkur hv. þingmenn stjórnarliðsins vegna árangurs okkar í barnabótum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri segja að við eigum að skammast okkar fyrir árangur okkar í barnabótunum. Hvað gerðist á árunum 1991–1995? Barnabætur lækkuðu um 12%. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmenn um að sýna ró í salnum. Það er erfitt að hlusta á þennan sannleik en þetta fólk á sér fortíð, það er svo skrýtið. Barnabætur lækkuðu um 12% á því tímabili, um 1.000 millj. á þessum fjórum árum. Í hvers lags árferði var það? Þá var kreppa. Þá var tekjusamdráttur hjá íslenskum heimilum og maður hefði haldið að þá hefðu stjórnvöld átt að standa sig í stykkinu og a.m.k. hjálpa barnafjölskyldum með því að láta framlögin í það minnsta standa óbreytt. Síðan kemur Samfylkingin hér og gagnrýnir okkur fyrir tímabilið 1995–2003 (Gripið fram í.) þar sem reyndar vantar upp á 1.000 millj. að raungildi, ég viðurkenni það. (Gripið fram í: 10 milljarða.) En í hvers lags umhverfi er það? Í því umhverfi að það er 40% kaupmáttaraukning í íslensku samfélagi. Og barnabæturnar munu fyrst og fremst að skila sér til þeirra sem þurfa á þeim að halda, lágtekjufólks og neðri hluta millitekjufólks. En Samfylkingin vill fara einhverja allt aðra leið þannig að allir fái jafnt. Tekjuskerðingar eru bannorð í munni hv. þingmanna Samfylkingarinnar. En hvernig vilja þeir ná fram jöfnuði? Því miður höfum við ekki fengið nein svör í þessari umræðu og það er þannig að málflutningur Samfylkingarinnar í skattamálum er út og suður, hefur einkennst af eintómum yfirboðum og engu öðru, en það þýðir ekki að slá þannig ryki í augu fólksins í landinu. Fólk sér betur. Þetta er óábyrgur málflutningur hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.