131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:35]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. framsögumanns nefndarinnar er ég andvígur þessu nefndaráliti og andvígur þessu frumvarpi. Þess vegna þykir mér dálítið undarlegt að þetta skuli vera nefndarálit allrar nefndarinnar en þannig á það víst að vera.

Hvers vegna er ég á móti þessu frumvarpi? Það er vegna þess að samningsaðilar atvinnulífsins, vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og ASÍ, sem hafa innan vébanda sinna hluta af því fólki sem vinnur á vinnumarkaði og hluta af þeim fyrirtækjum sem starfa á vinnumarkaði geta gert með sér samning sem á að gilda og lokað samkomulag sem á að gilda fyrir alla aðila, líka þá sem standa utan við þau, eitthvert fólk og einhver fyrirtæki úti í bæ. Það fólk hefur engin áhrif á það hvað gerist með þessa samninga. Þeir geta haft alvarleg áhrif á örlög þess fólks sem ekki er í stéttarfélögum eða stendur utan við þessi heildarsamtök og vinnur hjá fyrirtæki sem ekki er í Samtökum atvinnulífsins og stendur utan við þau samtök. Einhverjir aðilar úti í bæ geta verið að gera samninga sem varða þetta fólk en það hefur ekki áhrif á þá, t.d. um ýmsa framkvæmd á vinnuferlinu. Þetta er mjög alvarlegur hlutur að mínu mati, herra forseti.

Það má segja að byrjunin á þessu hafi verið 1974 þegar ákveðið var með lögum frá Alþingi að kjarasamningar þessara sömu aðila sem höfðu myndað samtök ættu að vera lágmarkskjör í landinu, líka fyrir fólk sem stóð fyrir utan verkalýðsfélög og fyrir fyrirtæki sem stóðu utan við samtökin. Þessum aðilum, svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins, var veitt ofurvald til að semja fyrir annað fólk, samningsfrelsið var tekið af því.

Nú er ekkert sem bannar mönnum að stofna stéttarfélag og það er ekkert sem bannar fyrirtækjum að stofna fyrirtækjasamtök en það eru þessi samtök og þessi stéttarfélög sem hafa vald til að semja fyrir hin fyrirtækjasamtökin og hin stéttarfélögin. Þetta er mikið framsal á valdi.

Nú vill svo til að sá samningur sem vísað var í og var gerður 7. mars 2004 brýtur að mínu mati við lauslega skoðun lög. Hann er nefnilega þess eðlis að hann er gerður fyrir útlendinga til að vernda útlendingana og hann veitir heimild til þess að fara til fyrirtækis og krefja það um laun til þessara útlendinga.

Hvað er að gerast? Það sem er að gerast er að einhver maður úti í bæ heimtar að fá að vita hvað einhver útlendingur hefur í laun. Og þessi maður úti í bæ á rétt á þeim upplýsingum samkvæmt þessu samkomulagi sem lögin eru búin að lögfesta. Þessi maður kemur þarna inn í fyrirtækið og útlendingurinn vill ekki að launin hans séu gefin upp, hann bara vill það ekki, en þau skulu gefin upp samt af því að hann er útlendingur. Þetta samkomulag tekur ekki til Íslendinga sem starfa hjá þessu sama fyrirtæki.

Ég held að ekki sé heimild til að fara inn í fyrirtæki og heimta upplýsingar um laun hjá einhverjum manni ef maðurinn neitar því. Það bara brýtur persónuverndarlög og jafnræði.

Þannig erum við komin í þessari stöðu að við erum búin að gefa einhverjum aðilum úti í bæ heimild til að gera samninga sem enginn veit um, þeir eru ekki einu sinni birtir, það þarf ekki að birta þá, þar sem ákveðið er um hitt og þetta sem varðar fólk í landinu. Ég hef bara miklar efasemdir um þetta, herra forseti, verulega miklar efasemdir um á hvaða leið við erum. Kannski væri ráð að fá Mannréttindaskrifstofuna til að líta á þetta frumvarp. (Gripið fram í: Það er búið að leggja hana niður.) Það er ekkert búið að leggja hana niður, hún fær að sjálfsögðu fjárveitingu eins og aðrar stofnanir hjá ráðherra sínum.

Ég hef miklar efasemdir um þetta og mátti til með að koma í pontu svona seint að nóttu eftir tvo hamingjudaga. Hér er virkilega farið að þykkna upp og farið að dökkna við sjóndeildarhringinn en ég hugsa þó að ég nái gleði minni aftur.