131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:46]

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að koma hér aftur upp en ég tel það nauðsynlegt til að varpa aðeins skýrara ljósi á þetta mál af því að komið hefur fram í umræðunni að hér sé verið að brjóta einhver sérstök réttindi á fólki og að menn geti ekki leitað til dómstóla. En eins og fram kom sérstaklega í nefndarálitinu munu menn geta leitað til dómstóla þó að þessi lög taki gildi. Hér er einungis verið að setja í lög að menn geti samið um ákveðið ferli ef þeir vilja leysa ágreiningsmál sín á milli. Það finnst mér mjög snjallt að gera þannig að hægt sé að hafa ferli á milli aðila, launþega og samtaka atvinnurekenda, sem menn eru sammála um til að reyna að leysa ágreiningsmál áður en þau koma til dómstóla. Hvað er á móti því? Ég sé ekkert á móti því. Mér finnst það mjög æskilegt.

Þrátt fyrir þessa lagasmíð geta menn leitað til dómstóla beint ef þeir vilja bæði áður en ferlið fer í gang eða eftir að því er lokið og það leiddi ekki til niðurstöðu. Það er því ekki meiningin að taka neinn rétt af fólki með þessari lagasmíð.

Ég vil sérstaklega ítreka það hér að ég deili ekki þeim hugmyndum að við séum að fara á skjön við önnur lög eins og fram hefur komið í umræðunni. Mér finnst það reyndar frekar ólíklegt að báðir aðilarnir á vinnumarkaði, þ.e. bæði ASÍ í þessu tilviki og Samtök atvinnulífsins með alla sína lögfræðinga sem þar starfa, fari að biðja um að þeirra samkomulag sé leitt í lög ef það brjóti einhver grundvallarréttindi. Mér fyndist það alveg með ólíkindum. Auðvitað er ekki hægt að útiloka það. En mér fyndist það eiginlega með ólíkindum og það kom ekkert fram í nefndarstarfinu sem benti til þess.

En fyrst ég er komin hingað upp, virðulegi forseti, vil ég taka það fram — nei, ég þarf ekki að taka það fram. Mér skildist að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson væri með fyrirvara — Jú, hann er með fyrirvara við þetta nefndarálit sem ég held að hafi gleymst að koma á framfæri í fyrri ræðu.