131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að verða ansi þreytt umræða um krónutölugjöldin. Þannig er að bifreiðagjald var fyrst lagt á árið 1988. Svo var það hækkað einhvern tíma, ég man ekki nákvæmlega hvenær en mig minnir að það hafi einmitt verið í tengslum við lækkun á matarskattinum. Það var tekin ákvörðun um að lækka matarskattinn og hækka bifreiðagjöldin, að flytja kostnaðinn, væntanlega frá fátækum fjölskyldum, yfir á bifreiðaeigendur. Sú ákvörðun var tekin í fyrndinni, fyrir tíu árum eða svo, og hefur þar af leiðandi hækkað gjöldin mikið. Þegar menn reikna út hækkunina frá því áður en sú ákvörðun var tekin þá er hún að sjálfsögðu mikil en mér finnst það ekki heiðarlegt.

Það sem við ræðum núna um er hækkun síðustu tvö árin eða þrjú, frá 2002 til 2005. Á þeim tíma hefur verðlag hækkað um 8,4% en þessi gjöld hækkað aðeins um 3,5%. Ég held að velflestir Íslendingar muni skilja að það er raunlækkun, herra forseti. Maður er eiginlega alveg gáttaður á því að stjórnarandstaðan skuli virkilega ætla að hafa gjöld óbreytt í krónutölu í áratug án þess að hækka þau. Það þýðir í raun lækkun, herra forseti, og það sér hver einasti maður.

Maður er gáttaður á að þurfa að endurtaka þetta aftur og aftur. Eiginlega ætti stjórnarandstaðan að vera í vinnu með ríkisstjórninni, fara í gegnum skattana alla saman, krónutöluhækkanirnar, og gæta þess að þeir rýrni ekki, eins og t.d. skráning á hlutafélögum, sem hefur rýrnað úr 210 þús. kr. niður í 150 þús. kr. Vilja hv. þingmenn að þau gjöld rýrni, gjöld fyrir skráningu á hlutafélögum?