131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:15]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Að hlýða hér á hv. þm. Pétur Blöndal er hálfsorglegt. Það er sorglegt til þess að vita að viðkomandi hv. þingmaður leiðir efnahags- og viðskiptanefnd og virðist hafa þann metnað helstan að leggja sem mestar álögur á bifreiðaeigendur. Það er fólkið sem þarf að ná í eins og það hafi ekki orðið fyrir nægum búsifjum af verðsamráði olíufélaganna. Ekki hefur komið fram í umræðunni að það hafi verið nokkur möguleiki að draga saman seglin einhvers staðar í ríkisrekstrinum, þó ekki væri nema til að mynda hið merkilega framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en sú vegferð á að kosta 1 milljarð eða svo. Ef því hefði verið sleppt hefði vel komið til álita að þessum álögum á bifreiðaeigendur hefði verið sleppt. (PHB: Engin rök.) Ef dregið hefði verið saman í ríkisrekstrinum hefði ekki þurft að koma til þessara álagna. Hv. þingmaður er algjörlega búinn að gleyma þeim hugsjónum og hugmyndum sem hann lagði af stað með í upphafi ferils síns. Nei, nú skulu öll gjöld og allir skattstofnar verðtryggðir frá A til Ö. Hvergi skal detta króna niður milli skips og bryggju, það skal ná í alla skapaða hluti. En hv. þingmaður, nú sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, kynnir ríkissjóð í þeirri stöðu að hann hefur aldrei tekið til sín hærra hlutfall af landsframleiðslu þjóðarinnar en hann gerir nú í skjóli allra skattaprinsanna sem duttu inn á þing hver um annan þveran, sem ætluðu að leysa samfélagsvandamálin með lækkun skatta, með aðgerðum til að draga úr þenslu ríkisins. Hver og einn einasti þeirra er búinn að kyngja þessu öllu saman. Hugsjónirnar voru ekki lengi að deyja í faðmi þess meiri hluta sem hv. þingmaður situr í og leiðir nú efnahags- og viðskiptanefnd, og telur fátt verra í veröldinni en að bifreiðagjöld séu ekki verðtryggð og hækki um 120 millj. á bifreiðaeigendur. Og hrópar síðan hér um sali: Er um raunhækkun eða um raunlækkun að ræða? Og undrast það að hv. þingmaður geti ekki svarað því sjálfur.

Frá 1988 er 43% raunhækkun. Frá árinu 2002 er um einhverja raunlækkun að ræða. Þetta er alveg augljóst. (PHB: Kaupmáttaraukning.) Um þetta er ekki deilt. (Gripið fram í: Jú.) Hvergi og ekki fyrir kosningar, og hv. þingmaður getur þá rifjað það upp með mér. Hvenær kynnti Sjálfstæðisflokkurinn þá pólitísku stefnumótun að allir skattstofnar skuli verðtryggðir og allir gjaldstofnar skuli verðtryggðir? Hvar var sú ákvörðun tekin? Og þá hljóta menn að spyrja: Af hverju eru ekki bótafjárhæðir verðtryggðar? Af hverju er ekki persónuafslátturinn verðtryggður? Af hverju eru ekki skattleysismörkin verðtryggð? Nei, en tekjur ríkissjóðs skulu verðtryggðar.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum um þetta á hv. þingmann, ég tel að það þjóni ekki miklum tilgangi, enda hefur hann komið í hvert andsvarið á fætur öðru og gelt eitthvað á þá leið: Er þetta hækkun eða lækkun, er þetta hækkun eða lækkun?

Kjarni málsins er einfaldlega sá að ríkissjóður þarf að afla sér tekna í samræmi við fjárþörf sína. Þeir þingmenn sem ætluðu að draga úr bákninu hafa algjörlega misst stjórn á ríkisfjármálunum. Aðhaldið er lítið sem ekkert. Því þurfa þessir hv. þingmenn að tryggja að þessir gjaldstofnar séu verðtryggðir til að geta framkvæmt allt sem þeir eru að gera, m.a. þá dásamlegu hugmynd að Íslendingar verði leiðandi afl í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.