131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[02:44]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við, þingmenn Samfylkingarinnar, rituðum undir nefndarálitið með fyrirvara eins og fram kom hjá hv. framsögumanni. Reyndar var það svolítið með semingi vegna þess hvernig að málinu var staðið og vegna þess mikla hraða sem var á málinu í gegnum nefndina þar sem málið var tekið út án þess að það væri fullfrágengið og vantaði töluvert upp á. Meðal annars höfðu menn ekki komið í orð hugsunum sínum hvað varðar meðferð á afslætti frá úttektar- og innmötunargjaldi sem lýst er í breytingartillögum.

Vegna þess að okkur sýnist, þó að þetta sé skyndiplástur á raforkulögin, það vera til bóta, líklega flest sem þarna er gert, töldum við ástæðu til að vera með á þessu áliti. Ég held að full ástæða hafi verið til að koma til móts við litlu raforkufyrirtækin sem þarna er verið að fjalla um og það er gert þarna með nokkrum hætti og eins er full ástæða til að koma á öðrum breytingum sem eru þarna settar fram og hér var farið yfir.

Ég ætla svo sem ekki að hafa um þetta langt mál, það eru ekki aðstæður til þess hér klukkan að verða þrjú að nóttu til. 3. umr. um málið er náttúrlega eftir þannig að það er hægt að ræða um það þá. En það hefði sannarlega verið ástæða til að ræða raforkumálin í tengslum við meðferð þessa máls í þinginu og ég tel að ekki verði undan því vikist að stjórnvöld geri grein fyrir þeirri framtíð sem menn þykjast sjá í því umhverfi sem er verið að búa til.

Það má segja um þau atriði sem hér voru kynnt í frumvarpinu og breytingartillögunum að þarna er verið að setja upp einhvers konar jafnvægiskúnstir til að búa til rekstrargrundvöll undir þeim fyrirtækjum sem eiga hlut að máli. Þarna skulu vera belti og axlabönd og allt sem mönnum hefur flogið í hug til að sjá til þess að menn græði ekki of mikið, menn tapi ekki of miklu á þeim rekstri sem þarna er fram undan. Auðvitað slær þetta mann undarlega á margan máta, allt saman, og það er ekki gott að sjá að hér sé að verða til eitthvað sem hægt er að kalla samkeppnisumhverfi en það hefur verið lagt af stað í þessa göngu og það er ekki annað að gera en að halda henni áfram og reyna síðan að lagfæra göngulagið eftir því sem reynslan kennir mönnum á þeirri leið sem fram undan er.

Ég hefði svo sannarlega viljað að hér hefði getað farið fram umræða um þetta mál í heild sinni og þá ekki um þessar lítils háttar breytingar sem í raun og veru eru hér á ferðinni. Ýmsir nefndu það að ástæða væri til að fresta þessari lagasetningu og það var rætt við þá sem komu til fundar við nefndina. Svör þeirra voru með ýmsum hætti hvað það varðaði en ég held að segja megi að aðalniðurstaðan hafi verið sú að ef menn frestuðu gildistöku þessara laga þyrfti að fresta henni helst um heilt ár. Það var ekki hægt að heyra að sú tillaga væri uppi í fullri alvöru að fresta málinu um heilt ár.

Niðurstaðan er sú að ekki eru uppi tillögur um að fresta málinu en hins vegar er fram komin í þessum breytingartillögum tillaga um að almennir raforkukaupendur komi þá inn í þetta samkeppnisumhverfi, ef svo má orða það, árinu fyrr en ætlað var. Ég held í sjálfu sér að við meðferðina á málinu í nefndinni hafi ekki komið fram neitt sem bendi til þess að í sjálfu sér sé nokkuð hættulegt að flýta þeim hluta málsins eins og hér er gert ráð fyrir að gera.

Ég ætla sem sagt ekki að halda þá ræðu sem ég hafði hugsað mér að halda við þessa umræðu. Ég ætla að geyma mér hana til síðari tíma, ræðu sem á auðvitað að fjalla um það samkeppnisumhverfi sem menn eru að leitast við að skapa og þær hættur sem eru fólgnar í þessu öllu saman. Ég verð að viðurkenna, og ætla að segja það þó hér, að ég hef af því miklar áhyggjur að afar erfitt verði að sjá til þess að þarna fari fram eitthvað sem hægt er að gefa nafnið samkeppni og þá á ég bæði við hvað varðar hámarksverð á raforku til neytenda og síðan það sem ég tel að full ástæða sé til að gefa gaum að, það að hér geti myndast stjórnlaus samkeppni sem geti komið fyrirtækjunum í raforkuframleiðslunni í mikil vandræði. Auðvitað þarf að liggja fyrir hvernig menn ætla að taka á þeim hlutum og ég geri ráð fyrir því að um það þurfi menn að tala, fyrir nú utan eignarhald og annað slíkt sem er auðvitað nauðsynlegt að verði tekið til umræðu á hv. Alþingi, og að stjórnvöld geri grein fyrir því að hverju er stefnt hvað þá hluti varðar. En það ætla ég að geyma mér til síðari tíma að ræða um.