131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[02:56]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er fjör í mönnum að það skuli vera samkeppni um ræðustólinn klukkan þrjú að nóttu.

Hér er á ferðinni, eins og kunnugt er, fyrsta plástursfrumvarpið af örugglega mjög mörgum sem við eigum eftir að sjá á næstu mánuðum eða missirum og varðar það að menn eru að reyna að lappa upp á og stoppa í götin á raforkukerfisbreytingunum miklu sem fylgja innleiðingu hinnar evrópsku raforkutilskipunar og verið hefur í undirbúningi hér um nokkurra ára bil að taka upp.

Þetta frumvarp kemur fram áður en kerfisbreytingin á að hefja vegferð sína 1. janúar nk. Það er auðvitað ákaflega táknrænt fyrir vandræðaganginn allan í undirbúningi þessa máls að menn geti ekki einu sinni hafið framkvæmdina á grundvelli hinna nýsamþykktu laga frá sl. vori og eldri ákvæða sem áður var búið að taka upp öðruvísi en að byrja að lappa upp á þau.

Það er afstaða okkar og hefur verið frá byrjun þessa máls, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það hafi verið ákaflega misráðið af Íslandi að fara þessa leið. Leita hefði átt eftir undanþágu til þess að við gætum látið þróun raforkumálanna hér ráðast á okkar eigin forsendum og í samræmi við okkar eigin þarfir en ekki þvinga þá hluti inn í einhvern ramma ímyndaðrar samkeppni og verslunar með raforku yfir landamæri og annað í þeim dúr sem er markmiðið með hinni evrópsku tilskipun. Ísland er einangraður orkumarkaður og við eigum að þessu leytinu auðvitað ekkert erindi inn í það lagalega umhverfi og samkeppnisumhverfi sem menn eru að búa þessum hlutum á meginlandi Evrópu. Það er eins og hver önnur fjarstæða. Landfræðilegar aðstæður eru hér allar aðrar, eignarhald á orkufyrirtækjum með allt öðrum hætti, sögulegar aðstæður aðrar og áfram mætti telja. Enda er það auðvitað þannig að þegar menn fara að skoða þetta betur og undirbúa framkvæmdina skjóta alls konar vandamál upp kollinum. Við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum hér. Það er mikil ólund meðal nánast allra sem eru að undirbúa og hrinda í framkvæmd þessum hlutum nema þá helst hæstv. ráðherranum sem ljómar jafnan af gleði þegar hún ræðir um þessa markaðs- og fyrirhuguðu einkavæðingu raforkumálanna. Húskarlar hennar í iðnaðarráðuneytinu og á Orkustofnun mega auðvitað eiga það að þeir, samviskusamir embættismennirnir, puða í þessu og koma með nýjar og nýjar tillögur og nýjar og nýjar formúlur og ný og ný reiknistykki til að reyna að koma þessu í framkvæmd.

Undirbúningurinn undir þetta mál er auðvitað afar skammt á veg kominn. Það var að fréttast af fyrstu reglugerðardrögum núna þegar komið var fram um mánaðamót nóvember og desember og jafnvel inn í desembermánuð, mánuðinn áður en kerfisbreytingin á að taka gildi og fara á að starfa samkvæmt þessum reglugerðum. Ákvæði um gjaldskrár sem áttu að vera komnar til umsagnar tveimur mánuðum áður en þær taka gildi um næstu áramót eru öll auðvitað orðin þverbrotin því að þær gjaldskrár hafa ekki enn litið dagsins ljós.

Af því m.a. stafar breytingartillaga mín og hv. þingmanns Guðjóns A. Kristjánssonar, að við lauslega kortlagningu þessara mála í iðnaðarnefnd er alveg ljóst að undirbúningurinn er afar skammt á veg kominn. Á fundum um þessi mál hafa menn tekið þannig til orða, að sögn, að þetta sé að vísu allt ansi seint á ferðinni en það sé ekkert annað að gera en að stinga sér í laugina. Það er jafnvel haft eftir orkumálastjóra sjálfum að það sé bara ekkert annað að gera en að stinga sér í djúpu laugina, og hún er köld, í djúpu laugina fulla af köldu vatni. Þannig á hin fyrsta sundferð í markaðsvæðingu raforkugeirans að vera.

Ég vil segja um breytingartillögurnar sem koma frá meiri hluta iðnaðarnefndar að þær eru í sjálfu sér heiðarleg viðleitni til að lagfæra ýmsa hluti í frumvarpinu, sem var eiginlega merkilega lélegt þegar betur var að gáð og eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á stendur ekki steinn yfir steini í því þegar búið er að fara um það höndum í iðnaðarnefnd í um eina viku. Nánast hverju einasta atriði sem kom á prenti frá ráðuneytinu er breytt. En það var góður vilji til að laga hluti og út af fyrir sig var hin ágætasta samstaða um það í iðnaðarnefnd. Þannig voru menn t.d. einhuga um að leita leiða til að lagfæra stöðu smávirkjana, þegar menn loksins skildu hvernig það allt var hugsað og ljósið rann upp fyrir þeim. Þá sáu menn auðvitað að það var ekki beint rökrétt að þvinga þessar minnstu virkjanir, þ.e. minnstu framleiðendurna inn í kerfi sem fyrst og fremst var hugsað til að tryggja þátttöku stórfyrirtækjanna í sameiginlegum rekstri dreifikerfisins eða flutningakerfisins í landinu, og ærin efnisleg rök og sanngirnisrök fyrir því að taka með öðrum hætti á smávirkjunum sem geta verið afar góðir viðskiptavinir og þarft að fá framleiðslu þeirra inn á dreifikerfin vítt og breitt. Slík framleiðsla dregur gjarnan úr orkutöpum í kerfinu, skapar viðbótaröryggi og verkar í raun og veru sem ákveðið varaafl á viðkomandi svæði og fleira í þeim dúr. Auk þess er það einfaldlega þannig að þar er á ferðinni lítill vísir að smáatvinnurekstri í strjálbýli landsins sem gæti orðið nokkuð mikils vísir ef menn nýta þá möguleika sem víða finnast til að reisa hagkvæmar og oftast tiltölulega umhverfisvænar smávirkjanir. Yfirleitt valda þær nánast ekki í neinum tilvikum umtalsverðum óafturkræfum eða óafturhverfum umhverfisspjöllum, einfaldlega vegna þess að þær eru yfirleitt því marki brenndar að á síðari tímum mætti fjarlægja og afmá öll vegsummerki um þær og þá hefðu vatnsföll aftur sitt eðli.

Ég hef einmitt stundum tekið dæmi af slíkum virkjunum til að útskýra fyrir mönnum hver munurinn sé á óafturhverfum umhverfisspjöllum annars vegar, eins og þeim sem standa fyrir dyrum með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Þjórsárveraveitu, ef í hana verður ráðist, þar sem gróðurlendum verður sökkt og eyðilögð náttúra sem aldrei verður endurheimt — og svo hins vegar virkjun eins og t.d. Mjólkárvirkjun þar sem pípur eru lagðar ofan jarðar og vatn tekið úr farvegi sínum sem nemur vegalengd fallsins eða rétt rúmlega það, og þau mannvirki væri að sjálfsögðu ef svo bæri undir á síðari tímum hægt að fjarlægja öllsömul og hleypa vatnsfallinu aftur í farveg sinn. Og þá þyrfti ekki mikið að sjást af því ef einhvern tíma kæmu þær aðstæður eða af einhverjum ástæðum yrðu þau viðhorf uppi að menn vildu viðhafa slíkt.

Þetta á almennt við um þessar smávirkjanir og ég skýt þessu svona inn í til þess að halda umhverfisþættinum í því til haga, en þar eru líka byggða- og öryggissjónarmið og atvinnusköpun á ferð og margt, margt fleira.

En það breytir engu um afstöðu okkar í þessu máli í grundvallaratriðum, frú forseti, þó þarna sé verið að reyna að gera lagfæringar. Við teljum þessa kerfisbreytingu — ég ætla nú bara að segja það hér á þessum ágæta næturfundi — tómt rugl, þetta er tómt rugl. Það er alger brandari að ætla að reyna að þvinga raforkumálin á Íslandi inn í miðevrópskt skipulag viðskipta með raforku yfir landamæri og samkeppni þar sem tugir eða hundruð framleiðenda á öllu meginlandi Evrópu og norður til Skandinavíu geta keppt á einu samtengdu raforkukerfi.

Enda kemur auðvitað í ljós að enginn maður hefur neina trú á þessari samkeppni. Forstjórar tveggja af þremur stærstu raforkuframleiðslufyrirtækjunum í landinu sögðu aðspurðir, ég hlýt að mega hafa ummæli þeirra hér eftir, þ.e. talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, að þeir væru nú varla svo bjartsýnir að þeir mundu lifa þá daga að raunveruleg samkeppni kæmist á í raforkuframleiðslu á Íslandi. Þetta móverk allt saman er víðs fjarri því — og nú er ekki til staðar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem móðgaðist í fyrravor þegar ég kallaði raforkulagasmíðina móverk, skildi reyndar ekki það orð fyrr en ég var búinn að útskýra það fyrir honum. Móverk er fyrirbæri, svona tildur úr heldur lélegum byggingarefnum. En þetta er sko sannarlega að reynast mikið móverk og menn hafa ekki meiri trú á því en svo að ungir menn við bestu heilsu, sem eiga síðan að búa við þetta og starfrækja fyrirtæki sín innan þessa ramma, hafa enga trú á að þeir nái að lifa eiginlega samkeppni í raforkumálum á Íslandi. Þannig er nú ástandið og þarf svo sem ekki að hafa mikið fleiri orð um það.

Enda þarf heilmikið reglu- og eftirlitsverk til, og þá kemur að orkumálastjóra, sem ég spái að verði þegar frá líður eini aðilinn sem eitthvað hagnist á þessu brölti, þ.e. að hans stofnun og starfsemi muni verulega bólgna út, eftirlitsgeirinn muni dafna talsvert vegna þess að auðvitað þarf að stjórna þessu öllu bæði í hólf og gólf, það þurfa að vera bæði axlabönd og belti og alls konar teygjur til að halda þessu innan tekjuramma og arðsemismarkmiða og guð má vita hvað. Það kemur sér að vísu vel að hafa reikningsglöggan mann eins og Þorkel Helgason í því starfi og honum mun ekki veita af allri sinni kunnáttu til að reyna að hafa einhvern hemil á þessu öllu saman. Það verður svona pilsfaldastýring á þessu, þetta verður einhver pilsfaldakapítalismi og alls konar vitleysa í þessu.

Tímans vegna og aðstæðna hér ætla ég ekki að hafa þetta lengra. Það eru nokkrar spurningar sem mér og fleirum leikur mjög hugur á að leggja fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og svo hefur um samist að þess gefist kostur á morgun, að 3. umr. verði þannig hagað að við fáum nokkurn tíma til að krefja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra svara um ýmsar áleitnar spurningar sem þessu máli tengjast og í raun og veru stöðu orkumála sem virðast vera mjög á floti um þessar mundir og fara af því ýmsar sögur, flestar óstaðfestar, að á bak við tjöldin sé alls konar draugagangur og hugmyndir í gangi um að slengja saman orkufyrirtækjum þvers og kruss. Menn úti í landshlutunum eru jafnvel farnir að álykta um ýmislegt sem kunni að vera í vændum og setja sig gjarnan á móti því, t.d. eins og að slá öllu saman í eitt slengi, Orkubúi Vestfjarða, Rarik og Landsvirkjun.

Hins vegar eru alvarleg mál sem tengjast þessari kerfisbreytingu sem enn hanga algerlega í lausu lofti og ég ætla að nefna í lokin ein þrjú, fjögur sem ég mun síðan endurtaka í formi spurninga til hæstv. ráðherra.

Ég veit ekki til að neinn botn sé kominn í hvernig eigi að koma í veg fyrir að raforka til fiskeldisstöðvanna í landinu stórhækki ekki 1. janúar nk. Síðast þegar ég spurði var ekki kominn neinn botn í það.

Ég veit ekki hvort málefni aðila eins og t.d. garðyrkjunnar eru á þurru þó að þau séu eitthvað betur tryggð í því sem nemur fjármunum sem fara formlega til niðurgreiðslna þar. Ég hef miklar áhyggjur af því að raforka til húshitunar geti átt eftir að hækka. Eins og þau mál standa, að því er ég best veit, er fullkomin óvissa um hvaða áhrif þetta komi til með að hafa á taxta raforku til húshitunar, og það er af þeirri einföldu ástæðu að Landsvirkjun hefur með afsláttum hjálpað til við að halda verði á húshitunarrafmagni niðri og það hefur komið til viðbótar niðurgreiðslum eða jöfnunargreiðslum sem fara yfir fjárlög í því skyni. Þarna er stórt gat í málinu sem ég veit ekkert hvernig mun reiða af hér 1. janúar nk.

Síðast en ekki síst er enn óútkljáð og ófyrirséð að hve miklu leyti verður um einhverjar almennar taxtahækkanir á raforku til notenda að ræða, a.m.k. á ákveðnum markaðssvæðum. Það er ljóst að þær verða einhverjar, t.d. á svæði Hitaveitu Suðurnesja, mögulega á svæði Orkuveitu Reykjavíkur og þá er nú talsvert talið. Og ekki er heldur útilokað að á svæðum rafveitna úti um landið og á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins geti orðið um hækkanir að ræða til einhvers hluta notendanna þó að aðrir kunni að koma út á sléttu eða jafnvel einhverjir hagnist. Það er hugsanlegt að einhverjir stærri notendur komi til með að fá eitthvað hagstæðari kjör hjá sumum dreifiveitum, en aðrir þurfi kannski að taka á sig hækkun.

Það er dálítið merkilegt að menn skuli um miðjan desember, eða svo gott sem, ætla að fara að kasta sér til sunds og þá eru tvær vikur til stefnu að koma öllu í framkvæmd. Eina vitið er auðvitað að taka sér aðeins meiri tíma í þetta, eins og við leggjum til. En ekki veldur sá sem varar, og ég tel að við sem leggjum það til, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, séum með því að gefa mönnum holl ráð sem þeir mættu vel íhuga að fara eftir. En kannski eru menn einhvern veginn þannig settir í tilverunni að ekkert pláss sé fyrir skynsemina og menn verði þá að dengja sér út í laugina. Ég ætla þá bara að vona að hún reynist ekki tóm, það er nógu slæmt að hún sé full af ísköldu vatni og menn ætli að fara ósyndir út í djúpa endann.