131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:11]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er mjög gagnleg. Hún skýrir átakalínur í íslenskum stjórnmálum. Með þessu frumvarpi stefnir ríkisstjórnin að því að lækka skatta um 20–30 milljarða á ári þegar allar skattbreytingarnar eru komnar til framkvæmda.

Í umræðunni um þetta frumvarp hefur komið berlega í ljós að stefna í skattamálum er jafnframt stefna í stjórnmálum. Öll viljum við góða samfélagsþjónustu. Við viljum góða grunnþjónustu, góð veitukerfi, góða skóla, góð sjúkrahús. Um þetta erum við öll sammála. Okkur greinir hins vegar á um hvernig eigi að greiða fyrir þessa þjónustu, annars vegar með sköttum í gegnum almannasjóði og hins vegar með notendagjöldum, sjúklingagjöldum eða skólagjöldum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mjög skýra stefnu í þessu efni. Við viljum jöfnuð í samfélaginu. Við eigum að axla byrðarnar saman, borga á meðan við erum heilbrigð með sköttum en ekki þegar við erum orðin veik með sjúklingagjöldum.

Mér hefur þótt sláandi við þessar umræður hvernig stjórnarsinnar tala um sjálfa sig, handhafa framkvæmdarvaldsins, fjárveitingavaldsins, ríkisstjórnina og Alþingi. Þeir vísa til sjálfra sín sem krumlu hins illa, krumlu ríkisins. Það þarf að bjarga peningum frá þessari krumlu og færa þá fólkinu.

Hver er þessi krumla? Það er öldrunardeild Landspítalans. Og hvaða fólk er það sem á að fá peninga frá öldrunardeild Landspítalans? Hvaða fólk er fólk ríkisstjórnarinnar? Það er hátekju- og stóreignafólk á Íslandi. Einstaklingur með 1 millj. á mánuði fær að gjöf frá þessari ríkisstjórn árlega 1 millj. kr. í vasann. (Gripið fram í: Á ríkið …?) Það er hins vegar velferðarþjónustan á Íslandi, heilbrigðiskerfið, skólakerfið og samfélagsþjónustan, sem kemur til með að blæða. (Gripið fram í: Þið viljið hækka skatta.) Um þetta standa deilurnar í íslensku þjóðfélagi. Síðan fáum við svona ódýr skot frá Framsóknarflokknum sem er nú að sanna hvar hann raunverulega stendur í íslenskum stjórnmálum sem hægri sinnaður peningafrjálshyggjuflokkur.