131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni leggjum megináherslu á lækkun virðisaukaskatts og hækkun barnabóta sem skili sér til barnafólks á næsta ári en að barnafólk verði ekki sett aftar í forgangsröðina eins og stjórnarflokkarnir gera. Við teljum okkar leið fela í sér jöfnuð sem við viljum setja í forgang og sitjum því hjá við tekjuskattsleið stjórnarflokkanna sem við höfum sýnt fram á að fer að stærstum hluta til tekjuhæstu hópanna. Það endurspeglast í því að helmingur af tekjuskattslækkuninni á næsta ári rennur til 25% hæstu skattgreiðendanna, og 200 hæstu skattgreiðendurnir fá í sinn hlut þegar skattalækkunin er að fullu komin til framkvæmda 2,4 millj. á ári, þ.e. 197 þús. kr. á mánuði, meðan þeir tekjuminni fá örlítið brot af þessari fjárhæð.

Sýnt hefur verið fram á, og það ekki hrakið, að stjórnarflokkarnir hafa lagt fram villandi útreikninga um áhrif eignarskattslækkunarinnar um að það sé að stærstum hluta lágtekjufólk sem eignarskattslækkunin gagnist. Hið sanna er að um helmingur allrar lækkunarinnar við niðurfellingu eignarskatta liggur hjá efsta fjórðungi framteljenda, hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna. Við munum sitja hjá við ákvæðin um eignarskattslækkunina en flytja við 3. umr. tillögur um mikla hækkun á fríeignamarki í eignarskatti sem felur í sér meiri jöfnuð í skattkerfinu. Við munum jafnframt greiða atkvæði gegn lækkun á eignarskatti lögaðila og mun það koma fram í þessari atkvæðagreiðslu.

Við flytjum breytingartillögu við ákvæði stjórnarflokkanna um barnabætur þess efnis að allir fái barnabætur greiddar með börnum sínum að 18 ára aldri og bætir það verulega kjör barnafjölskyldna. Treystum við því að framsóknarmenn styðji þá tillögu en þetta er gamalt kosningaloforð þeirra frá 1999 sem enn hefur ekki verið efnt. Að sjálfsögðu munum við greiða atkvæði gegn skerðingu vaxtabóta þar sem enn og aftur er ráðist að skuldugum heimilum.

Loks viljum við vekja athygli á að persónuafsláttur og viðmiðunarfjárhæðir bóta halda ekki í við verðlagsforsendur fjárlaga á næsta ári sem gera ráð fyrir 3,5% verðbreytingu á næsta ári en viðmiðunarfjárhæðir allar eru miðaðar við 3%. ASÍ spáir enn meiri verðbólgu og miðar við 4%. Við blasir því á fyrsta árinu sem skattalækkun ríkisstjórnarinnar tekur gildi að veruleg rýrnun er á persónuafslætti og öðrum viðmiðunarfjárhæðum bóta eins og barna- og vaxtabóta. Bara persónuafslátturinn einn og sér gæti rýrnað á næsta ári um 330–650 millj. kr. eftir því hvort stuðst er við spá fjármálaráðuneytisins eða ASÍ. Vegna þessa munum við í þessari atkvæðagreiðslu sitja hjá við ákvæðin um viðmiðunarfjárhæðir bóta og persónuafsláttar sem augljóslega eru vanmetnar nema ríkisstjórnin sé vísvitandi að rýra persónuafsláttinn á næsta ári sem enn dregur úr þeirri litlu skattalækkun sem fólk með lágar og meðaltekjur fær úr þessum skattapakka ríkisstjórnarinnar.