131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hækkun á viðmiðunarfjárhæð í persónuafslætti og rétt að vekja athygli á því hvað skattleysismörkin hafa skerst mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur með þeirri leið tekið til sín tugi milljarða í ríkissjóð. Enn er verið að skerða skattleysismörkin með því að miða viðmiðunarfjárhæðina við þær tölur sem hér eru og hefur ASÍ bent á að líkur séu á því að persónuafslátturinn rýrni verulega á næsta ári og þyrfti að bæta í þessa tölu útgjöldum sem nemur 650 millj. á næsta ári til að persónuafslátturinn héldi raungildi sínu miðað við verðlag þess árs.