131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:48]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nokkuð kjörkuð að koma hér upp og ræða um barnabætur, sá þingmaður sem í ráðherratíð sinni á Íslandsmet í skerðingu barnabóta á fjölskyldufólk í þessu landi. (Gripið fram í.) Hún kemur hér upp og lætur eins og hún eigi enga fortíð í þessu máli.

Hæstv. forseti. Efnahagslegt glapræði var málflutningur Samfylkingarinnar í skattamálum fyrir hálfum mánuði. (Gripið fram í: Nei, nei.) Hér eru ríkisstjórnarflokkarnir að lækka skatta um 4–5 milljarða. Hver er stefna hv. þingmanna Samfylkingarinnar í skattamálum á næsta ári? 9 þús. millj. kr. skattalækkun. Það á bara að gera allt strax. Efnahagslegt glapræði, hugsa um stöðugleikann, en þeir eru tilbúnir að lækka skatta um a.m.k. 9 þús. millj. Það kemur ný tillaga á eftir um lækkun á eignarskatti, tillaga sem Samfylkingin hafnaði algjörlega við 1. umr. þessa máls.

Nú er kominn nýr dagur og Samfylkingin vill allt í einu lækka eignarskatt.