131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Saga Framsóknarflokksins í barnabótamálum er kostuleg. Árið 1995 fór Framsókn í ríkisstjórn og tók í kjölfarið þátt í því að skerða barnabætur og tekjutengja þær að fullu, 100%. Strax við kosningarnar 1999, fjórum árum síðar, lofaði flokkurinn bót og betrun, lofaði barnakortum og ótekjutengdum barnabótum upp að 18 ára aldri.

Við það hefur að sjálfsögðu ekki verið staðið þótt flokkurinn hafi haft fimm ár til að koma þessu í framkvæmd. Hér gæfist Framsóknarflokknum kostur á því að sýna lit í barnabótamálunum. Það er að sjálfsögðu ekki gert, heldur fylgir Framsóknarflokkurinn forustu íhaldsins í þessu máli eins og öðrum. Ég ætla að gefa hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssyni það í morgungjöf að héðan í frá skuli Framsóknarflokkurinn heita Litla íhaldið. (Landbrh.: Hættu þessum barnaskap.)