131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[11:17]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Dýrt er nú kveðið, þykir mér. Misskilningur Samfylkingarinnar, eða rangfærslur hennar öllu heldur, felast í því að það sé rangt að halda áfram að afla ríkissjóði tekna þó að hér sé farið í stórfelldar skattalækkanir hvað varðar tekjuskatt og eignarskatt og það sé rangt að færa upp eitthvað í humátt á eftir verðlagsbreytingum gjöld sem bundin eru í lögum í krónutölu. Auðvitað er fjarstæða að tala um það sem skattahækkanir. Þessi gjöld hér hafa flest hver ekki verið hækkuð frá 1997, (Gripið fram í: Laumuskattar.) flest hver ekki síðan þá, og við erum að hækka þau um 10% sem er langtum minna en nemur hækkun verðlags á þessu tímabili. Allt þetta tal í Samfylkingunni er bara ábyrgðarlaust — hvert er nú rétta orðið? — ábyrgðarlaust rugl, hv. þingmaður.