131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð studdi ekki þá kerfisbreytingu á sínum tíma að markaðsvæða raforkukerfið í landinu. Við töldum mjög misráðið að hafa ekki leitað eftir undanþágu frá raforkutilskipun Evrópusambandsins. Þar á ofan er öll þessi framkvæmd mjög vanbúin til að taka gildi nú um áramótin. Því flytjum við, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, tillögu um að gildistökunni verði frestað um eitt ár.

Fari engu að síður svo að þessi lög taki gildi og framkvæmdin hefjist um áramót er auðvitað til bóta að reyna að lagfæra ágalla sem menn hafa þegar séð, eins og sést á þessu frumvarpi, fyrsta plástursfrumvarpinu á þetta móverk sem er flutt áður en sjálf framkvæmdin á að hefjast, á lögum sem sett voru hér síðasta vor. Við getum stutt 1. gr. sem varðar réttarstöðu starfsmanna sem koma til með að vinna við flutningskerfið og eftir atvikum hluta breytingartillagnanna sem eru óumdeilanlega til bóta en munum að öðru leyti sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps.