131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:14]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Mig langar til að þakka umhverfisnefnd fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í frumvarpið sem sannarlega er of seint fram komið. Við ræddum það nokkuð við 1. umr. málsins að málið er flókið og nauðsynlegt að þingnefndin hafi lengri tíma til að sinna slíkum málum. Það er jafnframt ljóst að úrvinnslugjaldið kemur árlega fyrir nefndina og þarf að fara yfir upphæðirnar á hverju ári.

Ýmislegt fleira nefndu hv. þingmenn sem ég vildi bregðast við, einkanlega hvað snertir skipan nefndarinnar, samkvæmt 2. mgr. b-liðar 6. gr. Þar er gert ráð fyrir að nefnd verði sett á laggirnar sem í eigi sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóði og Umhverfisstofnun. Ég vil geta þess að ég mun skipa í nefndina tvo fulltrúa frá sveitarfélögunum. Ég veit að það komu ábendingar þess efnis inn í þingnefndina og ég tel sjálfsagt að verða við því. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór nokkuð yfir álagninguna, 10 kr. álagninguna á kg, að nefndinni er fyrst og fremst ætlað að fara yfir framkvæmdina á þessu máli. Henni verður ekki falið að gera tillögur um gjaldið heldur fyrst og fremst um framkvæmdina. Það kemur mjög skýrt fram í greinargerðinni um þessa grein. Þar kemur fram að þetta sé gert til að leysa þann vanda sem snýr að söfnun hjá sveitarfélögum. Ljóst er að gefa verður sveitarfélögum rúman tíma til að skipuleggja söfnun flokkaðs umbúðaúrgangs frá heimilum. Þessu vildi ég bregðast við.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi líka veiðarfærin. Með þessu frumvarpi er ekki á nokkurn hátt breytt fyrri ákvörðun umhverfisnefndar um að veiðarfæri flokkist undir Úrvinnslusjóðinn en hins vegar er þeim aðilum sem þetta mál snertir gefið tækifæri til þess, samkvæmt lögum, að fara í frjálsa samninga. Ef það tekst ekki þá yrði að sjálfsögðu lagt úrvinnslugjald á veiðarfæri og lagaheimild til þess fyrir hendi.

Varðandi úrvinnslugjald á ökutæki eldri en 15 ára þá er megintilgangurinn fyrst og fremst sá að þau ökutæki, sem eru orðin gömul, komi til förgunar. Það er t.d. ljóst að það þarf ekki að greiða af þeim nema einu sinni til að unnt sé að fá gjaldið.