131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:20]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum efnum er engu líkara en sjávarútvegurinn sé eins og fríríki í ríkinu. Það kemur fram og reyndar í annað skipti í máli hæstv. ráðherra að sjávarútvegurinn lætur reka á reiðanum í þessu efni. Hann veit að sá dagur er að renna upp sem hann þarf að vera búinn að koma þessum málum sínum í lag og forsómar það. Menn geta velt því fyrir sér hvort þetta er kallaður skussaháttur, slóðaháttur eða hvort hér er einfaldlega verið að vinna í krafti reynslunnar og meðvitað verið að hleypa málum í þannig stöðu að ráðuneytið verður annaðhvort að beita hrammi sínum gagnvart greininni eða lúffa. Hæstv. ráðherra er í reynd að segja að umhverfisráðuneytið hafi í þessu efni lúffað og það er ekki í fyrsta skipti sem sjávarútvegurinn kemur fram með þeim hætti.

Við skulum gefa okkur að menn fari í frjálsa samninga. Við vitum hvað sjávarútvegurinn er tregur í þeim efnum þannig að full ástæða er til að ætla að frjálsir samningar muni ekki nást áður en þetta lokadægur, september ef ég man rétt, rennur upp. Mun þá umhverfisráðuneytið grípa til einhvers konar reglugerðar eða með hvaða hætti verður tekið á sjávarútveginum? Og til upplýsingar, ef hæstv. ráðherra veit það, hver eru viðurlögin við því ef þeir hlíta ekki þeim reglum sem eiga að gilda um þetta?