131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:22]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar nokkuð undarlegur. Málið snýst fyrst og fremst um það að á sínum tíma komu menn sér saman um að leggja úrvinnslugjald á veiðarfæri og það er enginn ágreiningur um það. Mér finnst það vera aðalatriði málsins og tel raunar að þessi mál séu í ágætum farvegi í dag því að veiðarfæri koma inn til förgunar. Það er ekki eins og þarna sé látið reka á reiðanum og allt sé í kaldakoli.

Þegar hins vegar þessir aðilar óska eftir því að gera frjálsa samninga og leysa málin sín á milli og að gildistöku lagaákvæðisins um að leggja á úrvinnslugjaldið verði frestað verð ég að segja að mér finnst það vera raunsæi að horfa framan í þann veruleika og viðurkenna hann og gefa þeim aðilum sem málið snertir svigrúm til að koma málunum fyrir með sem bestum hætti.