131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:24]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja málið með löngum ræðum. Mig langar aðeins til að skýra frekar það sjónarhorn sem ég lít á þetta mál. Ég hef áður komið að því sem þingmaður og ráðherra að þurfa að takast á við sjávarútveginn þegar umhverfismál eru annars vegar. Ég hef reynslu og þeir hafa reynslu og þeir vita það sem málum stýra fyrir sjávarútveginn að ef þeir láta reka á reiðanum og standa ekki við þau ákvæði sem er að finna í lögum og reglum er komið upp það sem hæstv. ráðherra kallar veruleiki og menn eiga að horfast í augu við þann veruleika. Niðurstaðan er yfirleitt sú, ekki alltaf en yfirleitt sú að framkvæmdarvaldið lúffar fyrir hinum öfluga þrýstiaðila sem sjávarútvegur, útvegsmenn og samtök þeirra LÍÚ eru.

Við þingmenn höfum áður farið eins og halaklipptir hundar undan á flótta fyrir sjávarútveginum þegar verið var að ræða um það upp úr 1995 að skylda öll skip til að koma með lífrænan úrgang að landi. Ástæðan var tvíþætt: Í fyrsta lagi til þess að auka verðmætavinnslu úr sjávarafla sem stöðugt er að takmarkast og í öðru lagi til að koma í veg fyrir lífræna mengun í hafi. Þegar kom að því að ákvæði umræddra laga áttu að taka gildi og fullvinnsluskipin áttu að vera búin að fjárfesta í búnaði til að geta hlýtt lögunum kom í ljós að ekki eitt einasta skip hafði ráðist í þennan kostnað, ekki ein einasta útgerð hafði gert það. Það voru einfaldlega samantekin ráð hjá þessari atvinnugrein að hlíta ekki lögunum og þingið, eða sá meiri hluti sem þá var, það var nýbúið að skipta um ríkisstjórn, fór undan á flótta og auðmýkti sig og niðurlægði með þeim hætti að umræddu ákvæði var hreinlega kippt út úr lögunum.

Ég er ekki að leggja það mál sem hérna er að jöfnu. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að það eru þó alltént ekki deilur um að fara ber með ákveðnum hætti að þessum málum, það ber að skila inn veiðarfærum og það á að greiða gjald til að kosta förgun þeirra. Gríðarlegt magn fellur til af vöru sem hægt er að nota úr efnum sem eru mjög skaðleg umhverfinu og efnum í þannig formi að ef þeim er ekki skilað inn, ef það eru freistingar fyrir hendi til að þeim sé ekki skilað inn geta þau haft ákaflega óheillavænleg áhrif á lífríki í hafinu. Þetta liggur einfaldlega fyrir.

Nú finnst mér sem við séum aftur að sigla í þetta ástand að reglur liggja fyrir, þær eru skýrar, lögin eru á tæru en þeir sem eiga að sæta lögunum og reglunum sætta sig einfaldlega ekki við það. Þá er kominn upp það sem hæstv. ráðherra kallar nýr veruleiki eða veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við. Gott og vel. Við skulum þá gera það. Það er vel hugsanlegt að í stöðunni sé framkvæmdarvaldið einfaldlega það veikt gagnvart því ofurefli sem birtist í samtökunum að menn beygja sig undir það. Við skulum þá ganga til frjálsra samninga við þessa menn um það hvernig á að gera þetta, en er það reglan í svona málum að menn geti einfaldlega látið hlutina dankast og sagt: Getum við ekki gengið til frjálsra samninga? Það er einfaldlega ekki þannig sem borgararnir geta yfirleitt komist hjá því að taka á sig þær kvaðir sem fylgja því sem eru umferðarreglurnar í samfélagi okkar sem felast í lögunum.

Herra forseti. Ég er fyrst og fremst með ræðu minni að leggja áherslu á að ég er mjög óánægður með málsmeðferðina. Ég ætla ekkert að fara að skaka skellum sérstaklega að hæstv. ráðherra út af málinu sem ekki hefur verið lengi í embætti. Ég er sannfærður um að hún hefur fullan vilja til að leysa það, hún kemur að stöðu sem er svona. Hins vegar vil ég lýsa því yfir af reynslu minni af því að eiga við þessi samtök að því miður er þetta plagsiður hjá þeim að haga sér svona og það kemur að því að taka þarf á þeim með þess konar hönskum að þeir finna að efnið í þeim er ekki silki.